Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Umhverfisáhrif kerta

30.11.2018 - 14:40
Mynd: Hjalti Stefánsson / Landinn/RÚV
Stefán Gíslason flutti umhverfispistil í Samfélaginu á Rás 1 og fór yfir innihald og umhverfisáhrif kerta, en víst er að kveikt verður á nokkrum slíkum á aðventunni.

 

Kertaframleiðsla og innihald

Nú þegar jólin eru á næsta leyti er þess að vænta að fólk kveiki á fleiri kertum en endranær. Kertaljós eru hluti af því notalega andrúmslofti sem flestir tengja við jólin, en kerti eru samt alls ekki öll jafn notaleg með tilliti til heilsunnar og umhverfisins. Þess vegna skiptir miklu máli hvernig kertin eru valin. Kerti er sem sagt ekki bara kerti.

Almennt talað er um tvo valkosti að ræða varðandi hráefni til kertaframleiðslu, annars vegar hráolíuafurðir og hins vegar afurðir úr dýra- eða plöntufitu. Parafín er enn langalgengasta hráefnið, en það er unnið úr olíu og hefur alla sömu galla og hver önnur jarðolía frá umhverfislegu sjónarmiði. Parafínkerti eru sem sagt bara olíukerti og þegar þeim er brennt sleppa gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið, auk þess sem brennslunni fylgir sótmengun sem getur verið afar heilsuspillandi fyrir þá sem una sér lengi við kertaljós innandyra. Hitinn í kertaljósinu er nefnilega ekki nægur til að eyða nokkrum af skaðlegustu olíuefnunum. Og svo er olían auðvitað óendurnýjanleg auðlind í þokkabót.

Kerti úr hinum flokknum, þ.e.a.s. olíulausu kertin, eru almennt mun ákjósanlegri frá umhverfislegu sjónarmiði, þó að uppruninn sé vissulega misjafn. Í þennan flokk falla kerti úr býflugnavaxi, repjuolíu og tólg, svo eitthvað sé nefnt. Algengasta hráefnið er þó stearín, sem er blanda af þremur mismunandi fitusýrum úr lífríkinu.

Vonda og góða kertið

Rétt eins og kerti er ekki það sama og kerti, þá er stearín ekki það sama og stearín. Í sumum tilvikum er stearín til dæmis framleitt úr pálmaolíu, sem er fengin úr pálmatrjám sem ræktuð hafa verið á svæðum þar sem áður voru regnskógar. Slíkt stearín er líklega engu betra en olíuafurðir frá umhverfislegu sjónarmiði.

Þegar við förum út í búð að kaupa kerti, þá er okkur sem sagt vandi á höndum, því að það er ekki endilega nóg að velja stearínkerti. Besta leiðin til að þekkja „gott stearín“ frá „vondu stearíni“, ef svo má að orði komast, er að kaupa Svansmerkt kerti. Til þess að kerti fái Svansvottun þurfa a.m.k. 90% hráefnanna að vera endurnýjanleg, sem þýðir m.a. að kerti úr parafíni geta ekki fengið vottun. Ilmefni eru ekki leyfð í Svansmerktum kertum, þar sem þau geta verið ofnæmisvaldandi, nokkur önnur óholl og mengandi efni eru líka á bannlista, og einnig eru gerðar kröfur um hámarks sótmengun. Svonefnd teljós, sem aðrir kalla sprittkerti, geta fengið vottun ef þau uppfylla fyrrnefnd skilyrði, en þó því aðeins að þau séu seld án hulsturs, eða þá í hulstri úr endurunnu efni sem uppfyllir ákveðnar umhverfiskröfur eða er notað aftur og aftur til sömu nota. Þannig getur teljós í álbakka ekki fengið Svaninn, jafnvel þótt álbakkanum sé skilað í endurvinnslu að notkun lokinni.

Til þess að tryggja að Svansmerkt kerti séu gerð úr „góðu stearíni“, svo ég haldi mig nú við það orðalag, gerir Svanurinn kröfu um að framleiðandi kertanna sýni fram á að hráefnið sé ekki fengið úr skóglendi sem njóta ætti verndar. Bannað er að nota hráefni úr pálmaolíu í Svansmerkt kerti – og það sama gildir um sojaolíu.

Framboð á Svansmerktum kertum hefur aukist mjög hratt á síðustu 10 árum, þ.e.a.s. frá því að fyrstu Svansmerkin voru límd á kertapakka í kertaverksmiðju Delsbo Candle í smábænum Delsbo skammt utan við Hudiksvall, 350 km norðan við Stokkhólm. Síðan þá hafa þó nokkrir kertaframleiðendur fengið leyfi til merkja vörurnar sínar með Svaninum, og í íslenskum búðum má finna talsvert úrval af Svansmerktum kertum. Reyndar geri ég ráð fyrir að Svansmerkt kerti myndu fást í öllum þeim verslunum sem á annað borð selja kerti ef viðskiptavinirnir myndu gera kröfu um það. Verslanir geta nefnilega aldrei selt neitt sem fólk vill ekki kaupa.

Fyrir nokkrum árum átti ég þess kost að spjalla við markaðsstjóra fyrirtækisins sem framleiddi fyrsta Svansmerkta kertið. Í því samtali komst ég meðal annars að því að þar á bæ áttu menn í vandræðum framan af með að finna stearín af ásættanlegum uppruna, eða öllu heldur af þekktum uppruna. Ævisaga hráefnanna fylgir nefnilega ekki alltaf með í hráefniskaupunum. Málið leystist svo farsællega þegar fyrirtæki í Karlshamn í Svíþjóð fór að framleiða stearín sem var eingöngu úr dýrafitu af þekktum uppruna. Í samtalinu við markaðsstjórann komst ég líka að því að kerti úr stearíni ósa ekki, sóta ekki, renna ekki niður og bogna ekki. Þessir ákjósanlegu eiginleikar stafa meðal annars af því að bræðslumark stearíns er tiltölulega hátt.

Endurunnin kerti góður kostur

Annar góður valkostur fyrir meðvitaða kertakaupendur er að kaupa endurunnin kerti, t.d. frá vernduðum vinnustöðum á Íslandi. Þessi kerti eru framleidd úr kertaafgöngum, sem annars hefði verið hent. Efnið er auðvitað af misjöfnum uppruna og hollustan eftir því misjöfn, en þessi framleiðsla skapar í öllu falli störf fyrir fólk sem á líklega ekki marga annarra kosta völ á vinnumarkaði. Og ef kertafgangarnir eru ekki notaðir í ný kerti lenda þeir væntanlega í urðun og verða engum til gagns upp frá því. Loks má nefna að auðvitað standa íslensku tólgarkertin alltaf fyrir sínu, þó að ég vilji ekkert fullyrða um sótmengun frá þeim.

Fyrst minnst var á endurunnin kerti, þá eigum við auðvitað að halda öllum kertaafgöngum til haga. Þeim er hægt að skila í sérstakar tunnur á gámastöðvum víða um land, og í sumum byggðarlögum sjá aðrir aðilar um söfnun á þessum varningi.

Til að fara út í aðeins meiri smáatriði, þá skiptir kveikurinn í kertunum líka máli þegar rýnt er í umhverfisvænleika þeirra. Yfirleitt er kveikurinn úr bómull, en erfitt er að gefa einhverja forskrift að því hvaða kveikir séu bestir. Aðalatriðið er auðvitað að kveikurinn gefi eðlilegan loga og sem minnst sót. Bómullarkveikir í Svansmerktum kertum verða að vera úr Ökotex-vottaðri bómull, og þar eru málmþræðir í kveikjum alfarið bannaðir. Hér kemur Svanurinn því aftur í góðar þarfir.

Boðskapurinn er í stuttu máli þessi: Njótum aðventunnar og njótum jólanna. Og ef við viljum kveikja á kertum, þá ættu þau að vera Svansmerkt og þar af leiðandi úr ásættanlegu hráefni og án ilmefna. Olíukerti eru á hinn bóginn bæði skaðleg fyrir þá sem anda að sér reyknum frá þeim, fyrir náttúruna og fyrir komandi kynslóðir. Þeirra tími er liðinn.

 

thorhildurg's picture
Þórhildur Guðrún Ólafsdóttir
dagskrárritstjórn