Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Umhverfis jörðina og Afmæli Óðs og Flexu

Mynd: Þjóðleikhúsið / Leikhúsið.is

Umhverfis jörðina og Afmæli Óðs og Flexu

02.02.2016 - 11:30

Höfundar

María Kristjánsdóttir, leiklistargagnrýnandi, fjallaði um tvær sýningar fyrir börn á öllum aldri í þættinum Víðsjá á Rás 1. Hér má hlusta á og lesa pistil Maríu.

 

Umhverfis jörðina

Undir áhrifum frá viðtali sem birtist við Þjóðleikhússtjóra í vikunni sem leið þar sem hann sagðist vilja sjá alls konar fólk í Þjóðleikhúsinu jafnt pípara sem sjúkraliða en ekki bara menningarelítuna úr 101-um þá tók ég með mér í leikhúsið að sjá „Umhverfis jörðina á áttatíu dögum“ tíu ára gamalt barnabarn mitt, sem er sonur næstum því pípulagningarmanns. Taldi það hljóta að geta vegið upp á móti prófgráðunum mínum auk þess sem hann nota bene býr í 108 og ég í 110. Og þetta hafði hann að segja um sýninguna:

Leikritið er gott. Það kennir manni að hugsa vel um jörðina. Konur eiga að hafa jafnan rétt og karlar og svartir menn jafn mikinn rétt og hvítir menn. Leikararnir léku bara allir mjög vel. Þjónninn mjög góður. (Þögn) Nafnið Fogg er næstum því sama og dónalegt orð á ensku en búningurinn hans var mjög flottur. Konan var líka skemmtileg. Inntur eftir því hvað honum hafi fundist um leikmyndina þá var hann ánægðastur með gufuvélina, lestina, bátinn, kortið og boltann sem þau notuðu fyrir jörðina þegar þau sungu. Og klykkti svo út með að segja að söngurinn hafi verið mjög góður og tónlistin frábær.

Hann taldi sig ekki þurfa að tjá sig meira um þetta og fór að spila á píanó fyrir afa sinn. En orð stúlku sem sat á bekk fyrir ofan mig og var augsjáanlega ekki komin alveg jafn nálægt fullorðinsárunum og hann mega líka fylgja en hún veifaði höndum í hrifningu: „mikið var þetta skemmtilegt.“

Sjálf hef ég sennilega verið á svipuðum aldri þegar ég hlustaði á leikgerð eftir sögunni hans  Jules Verne „Umhverfis jörðina á áttatíu dögum“ í útvarpi allra landsmanna. Þá var heimurinn miklu stærri en nú, vegalengdirnar meiri og það sem situr eftir í líkamanum er hin mikla eftirvænting og spenna: Ná þeir Filias Fogg og Passpartout aftur heim á áttatíu dögum. Vinnur Filias Fogg veðmálið?

Það truflaði mig því lengi framan af hvað mér fannst verkið seint af stað, hægfara, söngvarnir alltof langir svo að leikhúsvitinn inní mér var jafnvel farinn að hrópa: tempó, meira tempó. Hann hætti ekki fyrr en ég skildi að leikrit þeirra Karls Ágústs Úlfssonar og Sigurðar Sigurjónssonar fjallar alls ekki um það hversu hratt Filias Fogg kemst í kringum jörðina eða hvort leynilögreglumaðurinn Fix geti stöðvað þá för heldur um þá lærdóma sem fulltrúi breska heimsveldisins dregur af ferð sinni um önnur lönd. Það er Ágústa Skúladóttir sem leikstýrir og ég held ég megi fullyrða að það sé í fyrsta sinn sem við sjáum sýningu í anda „gufupönksins“ eða „steampunk“ hér á sviði. En sá menningarkimi varð til á níunda tug síðustu aldar í engilsaxneskum heimi sem nokkurskonar undirgrein vísinda- og ævintýraskáldskapar; skáldsögur, leiksýningar, tónlist, tölvuleikir hafa verið skapaðir undir þeim formerkjum og þeir eru venjulegar látnir gerast á stjórnarárum Viktoríu drottningar í Englandi – eins og „Umhverfis jörðina á áttatíu dögum“‒ eða í villta vestrinu. Þetta er fagurfræðilegur  heimur gufuvélarinnar og annarrar tækni og hönnunnar iðnbyltingarinnar.  Ágústa og Högni Sigurþórsson eru þeim heimi trú. Leikmyndin er í anda nítjándu aldar nær flatur, skorinn bakgrunnur, sem býður þó upp á góðar innkomur og útgöngur og mikil ævintýri: undarlegar vélar, skip, kafbát og skemmtilegan brúðuleik. Og það er líka mikill léttir að sjá nánast sögulega heild en ekki þessar eilífu auðveldu og ódýru nútímaútfærslur í búningum Leilu Arge.

Tónlist þeirra Baldurs Ragnarssonar og Gunnars Ben hrífur ekki í byrjun en vex svo ásmegin og nær miklum áhrifum þegar komið er til Asíu. Þeir félagar taka líka að sér ýmis hlutverk í verkinu og leysa þau vel af hendi. Annars eru það þau Sigurður Sigurjónsson sem Filias Fogg , Örn Árnason sem Passepartout, Karl Ágúst Úlfsson sem Fix leynilögreglumaður og Ólafía Hrönn Jónsdóttir sem indverska konan Auda (þau tvö síðastnefndu fara með reyndar með fjölda hlutverka) sem bera uppi sýninguna. Þó að Sigurður Sigurjónsson mætti ef til vill í byrjun stækka þröngsýni sína, herping og vald gagnvart hinum glaðværa, framfarasinnaða, kómíska Passpartout hans Arnar Árnasonar svo að umskiptin í lokin verði gleðilegri ‒  og Ólafía Hrönn Jónsdóttir að stilla sig um að gera Audu kómiska vegna boðskaps verksins ‒ þá skapa þau öll ákaflega skemmtilegar persónur og renna sér af lipurleik milli þeirra fjölda atriða og skemmtilegra leiklausna sem þessi sýning býður uppá. Sérstaklega ánægjulegt er auðvitað að íslensk börn fái að kynnast í sjálfu leikhúsinu skapandi hæfileikum þessara fjögurra leikara jafnt í leik sem á vegum orðins listar.

Þverskurður þjóðarinnar mælir því með þessari sýningu þó grunar mig að níu ára og eldri þurfi fólk að vera til að njóta hennar.

Óður og Flexa halda afmæli

Deginum áður fór ég hins vegar í Borgarleikhúsið og sá með sjö ára gömlu barnabarni nýtt dansverk á litla sviði Borgarleikhússins. „Óður og Flexa halda afmæli“ heitir það og eru handrit og dansar eftir þau Hannes Þór Egilsson og Þyri Huld Árnadóttur en þau dansa einnig aðalpersónurnar þau Óð og Flexu.  En þær ofurhetjur eru okkur áður kunnugar úr fyrra verki þeirra  „Óður og Flexa reyna að fljúga.“ Sem fyrr er aðeins einn hlutur sem styður dansara á sviðinu, blágrænn sófi með mikla dýpt. Og utan um hann, niðrí hann , framan við hann við hann hverfist frásögn dansins. Hraður er hann og gamansamur í fyrstu við tónlist þöglu myndanna. Hannes Þór og Þyri Huld styrkja hann í átökum með skemmtilegum svipbrigðum, látbragði  og hljóðum.  Ekki síðri er töframaðurinn herra Glæsibuxur sem Cameron Corbett dansar af sama húmor en þó öllu hátíðlegar. Herra Glæsibuxur vill koma hugmyndaflugi krakkanna af stað með óvenjulegri  afmælisgjöf sem þau í fyrstu fúlsa við og kasta á bak við sófann. En svo simmsarabimm fer að vaxa uppúr sófanum einhverskonar undarlegt form, kannski marglytta sem veltist um sviðið og úr henni síðan spretta þau Freta og Rekaviður sem Ellen Margrét Bæhrens og Ásgeir Helgi Magnússon dansa. Og það sem þau geta prumpað á margvíslegan hátt! Þetta verður sannkallað töfra afmæli þar sem dansararnir jafnvel hverfa og ekkert sést nema flúorlitaðar hendur, höfuð, hattur. Og aðeins þá undir lok þess atriðis virðist nær áþreifanleg hlustun og athygli barnanna frá upphafi dvína eitt andartak en kvikna svo strax aftur þegar hinir frábæru dansarar sem þau eru farin að elska birtast á ný.  Leikstjóranum Pétri Ármannssyni og dönsurunum tókst sem sagt listilega að efna það sem þau lofa áhorfendum í leikskrá, að fara með okkur í ævintýralegt ferðalag.  Sá sjö ára var dolfallinn. „ Þetta var skemmtilegt“,  endurtók hann nokkrum sinnum og vildi fara stax aftur.