Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Umfjöllun getur leitt til fleiri sjálfsvíga

09.02.2018 - 20:03
Sjálfsvígum fjölgaði óeðlilega mikið, mánuðina eftir að bandaríski leikarinn Robin Williams svipti sig lífi fyrir fjórum árum. Prófessor í faraldsfræði segir líklegt að mikil umfjöllun fjölmiðla um sjálfsvígið eigi sinn þátt í fjölgun þeirra.

Robin Williams svipti sig lífi í ágúst 2014. Hann var einn þekktasti kvikmyndaleikari heims og því var mikið fjallað um andlát hans. Margir fjölmiðlar gengu enn lengra og greindu í smáatriðum frá því hvernig leikarinn hefði fyrirfarið sér.

Sjálfsvígum fjölgaði eftir að sjálfsvíg Robin Williams

David S. Fink, prófessor í faraldsfræði við Columbia-háskóla, hefur rannsakað tíðni sjálfsvíga frá 1999 til 2015 og kortlagt sérstaklega tíðnina mánuðina eftir að Williams lést. Niðurstöður hans sýna að tíðni sjálfsvíga í Bandaríkjunum var 10 prósentum yfir meðaltali mánuðina fjóra eftir andlát Williams. Það þýðir í raun 2.000 fleiri sjálfsvíg en búast hefði mátt við miðað við meðaltalið.

Fink segir að þetta sé í fyrsta sinn sem rannsakað sé hvaða áhrif sjálfsvíg þekktrar manneskju geti haft. Hann segir að tíðni sjálfsvíga hafi aukist hjá konum og körlum og í öllum aldurshópum. Tíðnin jókst þó meira á meðal karla og mest í aldurshópnum 30 til 44ra ára. Þá hafi mun fleiri en venjulega notað sömu aðferð og Williams notaði við að stytta sér aldur.

Hafa gefið út leiðbeiningar til fjölmiðla

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur gefið út ráðleggingar til fjölmiðla um hvernig fjalla ætti um sjálfsvíg þekktra einstaklinga. Fjölmiðlum er ráðlagt að dvelja ekki við það hvernig viðkomandi stytti sér aldur, rekja gjörninginn sjálfan ekki í smáatriðum eða eyða miklu rými í vangaveltur um ástæður þess, að viðkomandi valdi þessa leið út úr jarðvistinni. Niðurstöður rannsóknar Finks benda til þess að fjölmiðlar vestra hafi í öllum meginatriðum vikið frá þessum ráðleggingum.

Engilbert Sigurðsson, prófessor í geðlæknisfræði við Háskóla Íslands, segir það hafa verið þekkt í nokkra áratugi að umfjöllun fjölmiðla um tiltekið sjálfsvíg, og þá sérstaklega sjálfsvíg þekkts einstaklings, virðist leiða af sér aukinn fjölda sjálfsvíga í kjölfarið. Bogi Ágústsson, fréttamaður, ræddi við Engilbert í sjónvarpsfréttum í kvöld. Engilbert segir að sjálfsvígin sem framin séu í kjölfarið séu gjarna með svipuðum hætti og það það tiltekna sjálfsvíg sem fjölmiðlar hafi mikið fjallað um. Um þetta hafi Alþjóða heilbrigðismálastofnunin ítrekað ályktað.

Mæla með því að fjölmiðlar fjalli ekki á áberandi hátt um sjálfsvíg

Er það bara umfjöllun þekkt fólk eða er öll umfjöllun um sjálfsvíg til þess fallin að auka sjálfsvígstíðni? „Nei, ekki öll umfjöllun um sjálfsvíg en það sem komið hefur komið út úr rannsóknum og miklum umræðum á síðustu áratugum, er að það er sérstaklega verið að fjalla um einstök sjálfsvíg á áberandi hátt og endurtekið eins og í fyrstu frétt, eða með stórum fyrirsögnum eða á forsíðu. Það er ekki mælt með því.“ Ekki sé heldur mælt með því að ræða aðferðina við sjálfsvígið í smáatriðum eða tekja tímarásina nákvæmlega. 

Engilbert segir einnig mikilvægt að taka tillit til aðstandenda og hafa í huga að fræða fólk í sjálfsvígshugleiðingum, til dæmis um hjálparsímann 1717 og netspjallið þar.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV