Göngin voru formlega tekin í notkun 11. júlí 1998. Það voru nýmæli að grafin voru göng í einkaframkvæmd og veggjald innheimt. Hlutafélagið Spölur var stofnað 1991 og er í eigu Faxaflóahafna, ríkissjóðs, Elkem á Íslandi, Hvalfjarðarsveit, Vegagerðarinnar og Akraneskaupstaðar. Gísli Gíslason, stjórnarformaður Spalar, segir að hlutverki félagsins ljúki á næsta ári þegar göngin verða formlega afhent ríkinu og gjaldtöku hætt.
„Um það var samið árið 1995 þegar gengið var frá samningum við ríkið. Þar kemur fram hvert hlutverk Spalar er. Reka göngin, greiða af lánum og lokagreiðsla er í september á næsta ári. Þannig að þá er okkar hlutverki lokið. Jafnvel fyrr ef umferðin heldur áfram að þróast eins og síðustu misseri,“ segir Gísli.
Stjórnvöld fara sér hægt
Umferðin um göngin hefur í gegnum tíðina verið framar vonum. Fór fljótlega í það að vera að meðaltali um 3 þúsund bílar á dag en jókst jafnt og þétt í þenslunni fyrir hrun og var komin vel yfir 5 þúsund 2007. Efir hrun sló aðeins í bakseglin en meðalumferðin hélst þó yfir 5 þúsund. Síðustu tvö ár , þó sérstaklega í fyrra hefur bílum fjölgað hratt, meðalumferðin komst upp í tæplega 6500. Á þessu ári er því spáð að meðalumferðin nálgist 7000 þúsund bíla á sólarhring. Reglur kveða á um að umferðin megi ekki fara yfir 8 þúsund bíla á sólarhring. Gísli segir að Spölur hafi vakið athygli á þessu árið 2005 þegar umferðin jókst jafnt og þétt. Áhyggjurnar minnkuðu í hruninu þegar aftur dró úr umferð en nú stefni í að 8 þúsunda mörkin séu á næsta leiti.
„Spurningin er hvernig menn ætla að bregðast við því að umferðin fari yfir þessi öryggismörk samkvæmt reglugerðum. Menn hjá ríkinu eru eflaust að skoða hlutina en okkur finnst rólega róið, segir Gísli.
Stjórnvöld geta ekki rekið göng með skert öryggi
Ákvæðið um að umferð megi ekki fara yfir 8 þúsund bíla á sólarhring er undanþáguákvæði frá evrópskum reglugerðum sem miðað við 2 þúsund bíla og að þá verði að vera flóttagöng eða flóttaleiðir úr göngunum. 8 þúsund bílar á sólarhring er miðað við ársmeðaltal. Sumarumferðin í fyrra var vel yfir þessum mörkum og fór í tæplega 9.500 bíla í júlí á sólarhring. Meðal vetrartraffíkin er minni eða nálgast að vera nærri 5 þúsund.
„Við erum að tala um 4000 bíla á hvorri akrein. Það er að segja 8 þúsund bíla sem nálgast okkur mjög hratt. Ég held að það sé einsýnt hvað sem hver segir að ríkið getur aldrei verið þekkt fyrir að reka göng með einhverju skertu öryggi. Afleiðingarnar af stóru óhappi í svo mikilli umferð er eitthvað sem enginn vill taka ábyrgð á,“ segir Gísli Gíslason