Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Umferðarteppa viðbúin við Klaustur vegna flóðs

06.08.2018 - 09:01
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Karl Harðarson
Vatn úr Skaftárhlaupi flæðir yfir þjóðveg eitt á fimmtíu til hundrað metra kafla, við útsýnisstaðinn í Eldhrauni, skammt vestan Kirkjubæjarklausturs. Ekki er talið að loka þurfi veginum en hámarkshraði hefur verið lækkaður í þrjátíu kílómetra á klukkustund, segir Guðmundur Kristján Ragnarsson, flokksstjóri hjá Vegagerðinni í Vík í Mýrdal. Viðbúið er að umferðarteppa myndist.

„Þetta vætlar bara í gegnum hraunið. Hraunið tekur bara við og svo sígur það í gegn og það streymir upp hér og þar. Hraunið hjá okkur virkar eins og ræsi,“ segir Guðmundur. Þannig streymir vatnið beint upp úr hrauninu og flæðir yfir þjóðveg eitt.

„Maður hefur ekki séð vatn þarna áður. Þetta er bara eitthvað sem er að gerast núna og við tökum bara á því,“ segir Guðmundur.

Vegurinn liggur um Eldhraun og því er ekki unnt að moka frá veginum til þess að gera pláss fyrir vatnið. 

„Nei, það er ekkert hægt að moka neitt þarna í burtu. Það er bara að taka niður umferðarhraða svo menn fari sér ekki að voða í þessu. Það vætlar vatn þarna upp á veginn og við vonum að það verði ekki meira en það sem komið er,“ segir Guðmundur. 

Hvað myndi gerast ef fólk keyrði á 90 eða 100 km hraða þarna yfir?
„Þá fljóta bílarnir upp og fólk ræður ekki neitt við neitt. Þannig að það er betra að taka niður hraðann og vona að fólk fari eftir umferðartakmörkunum okkar,“ segir Guðmundur.

Hámarkshraðinn verður lækkaður í 30 km. Þannig að það er hætt við að umferðarteppa myndist.

„Þetta er stuttur kafli. Menn verða að vera spakir á meðan menn eru að seytlast yfir þetta,“ segir Guðmundur.

Eru einhverjar líkur á að það þurfi að loka þjóðvegi eitt þarna?
„Nei, ekki eins og staðan er núna – ég tel engar líkur á því. Mesta hlaupið er komið fram, það var í gær. Þetta er í rénun. Hlaupið er bara svo ofboðslega lengi að fara í gegnum hraunið, þannig að við verðum með einhver vandamál í dag og á morgun,“ segir Guðmundur.