Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Umferð um Selfoss þung og hreyfist hægt

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Umferð í gegnum Selfoss og vestureftir er þung og hreyfist hægt, segir lögregla. Umferðin hafi sennilega náð hámarki núna um fimmleytið. Ökumenn hafa verið til fyrirmyndar í umferðinni þrátt fyrir að nokkrir hafi farið of snemma af stað eftir skemmtun helgarinnar, skrifar lögreglan á Suðurlandi á Facebook.

Á þriðja tug kærðir fyrir ölvunarakstur

Það sem af er helgi hefur á þriðja tug ökumanna verið kærður fyrir ölvunarakstur á Suðurlandi, segir Elín Jóhannsdóttir, varðstjóri á Selfossi. „Í flestum tilfellum hefur fólk verið að fara of snemma af stað,“ segir hún.

Bíll við bíl

Hún segir að umferðin sé sums staðar mjög þung. „Þetta er bíll við bíl, bæði á brúnni og gatnamótunum við Biskupstungnabraut þar sem margir koma í bæinn úr uppsveitum,“ segir Elín. Umferðin streymi frá Landeyjahöfn, Flúðum og uppsveitum Árnessýslu.

Boðið að blása við Landeyjahöfn

„Við erum með aukið eftirlit,“ segir Elín. Sérstaklega sé haft eftirlit með ökumönnum við Landeyjahöfn, þar sem ökumönnum er boðið að blása í áfengismæli. Núna í kringum fimmleytið sé umferðin hvað þyngst en Elín býst við því að hún verði nokkuð mikil fram eftir kvöldi. Hún tekur hins vegar fram að helgin hafi verið róleg og góð. „Ökumenn virðast rólegir og þetta gengur vel.“ Sjá má Facebook-færslu lögreglu hér fyrir neðan.

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV