Umferð á Vestfirði aldrei meiri en í júlí

01.10.2015 - 06:27
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - Ríkisútvarpið ohf
Meðalumferð á Vestfirði hefur aldrei verið meiri en í júlí á þessu ári eða 1017 bílar á dag. Heildarumferð ársins 2015 virðist ætla að verða meiri en árið 2014 og sú mesta hingað til.

Miðað er við teljara Vegagerðarinnar við Svínadal, Vestfjarðavegi 60. Þá er talin umferð sem fer á Vestfirði um Þröskulda og Reykhólahrepp sem og þá umferð sem kemur af Norðurlandi um Laxárdalsveg.

Heildarumferð sumarsins jókst miðað við síðasta ár og var dagleg umferð 747 bílar en 712 bílar í fyrra. Umferð jókst bæði í júní og júlí en var minni í ágúst. Sá munur gæti stafað af því að föstudagur verslunarmannahelgarinnar var í júlí í ár en í ágúst í fyrra.

Díana Jóhannsdóttir, markaðsfulltrúi hjá Markaðsstofu Vestfjarða, segir að íbúar á Vestfjörðum hafi orðið varir við aukna umferð og ferðamenn hafi verið fyrr á ferðinni en áður. Meðatal daglegrar umferðar í júní var 693 bílar en 659 bílar árið 2014. Díana telur að lokanir á hálendinu í upphafi sumars hafi skilað sér í aukinni umferð á Vestfirði. Hún telur júní góðan mánuð til að átta sig á aukningu erlendra ferðamanna því þá eru Íslendingar ekki komnir jafnmikið á stjá. Veðrið gæti einnig hafa haft áhrif á umferð landsmanna sem og erlendra ferðamanna, veðrið var blautt og kalt á Austurlandi í júlí og fram í ágúst og því leituðu ferðalangar til vesturs.

Í lok 2015 gæti raunin orðið sú að umferð á Vestfirði um Svínadal verði tvisvar sinnum meiri en hún var árið 2005. Þá var meðaltal daglegrar umferðar 211 bílar en reiknað er með því að þeir verði um 425 í árslok. Umferðin þessa leið tók mikla sveiflu árið 2009 þegar nýi vegurinn um Arnkötludal, Þröskuldar, var opnaður.

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV