Umfangsmestu njósnir sem fram hafa farið

Mynd með færslu
 Mynd:

Umfangsmestu njósnir sem fram hafa farið

26.01.2014 - 20:12
Njósnir lögreglunnar um allt að 1000 konur árið 1941 eru umfangsmestu persónunjósnir hér á landi segir Þór Whitehead sagnfræðiprófessor. Hulunni var nýlega svipt af gögnum sem Jóhanna Knudsen lögreglukona safnaði um konur sem taldar voru í ástandinu, það er í tygjum við hermenn.

Þór segir í nýjasta hefti tímarits Sögufélagsins frá rannsókn sinni á gögnum Jóhönnu Knudsen, fyrstu lögreglukonunnar og yfirmanns ungmennaeftirlits hennar. Einnig hefur v erið fjallað um rannsóknina í Speglinum í Útvarpinu. Fræðimenn fengu aðgang að gögnunum í Þjóðskjalasafninu fyrir tveimur árum. Safnið fékk gögnin árið 1961 með því skilyrði þau yrðu ekki opnuð fyrr en eftir í 50 ár.

Jóhanna skráði upplýsingar um konur í tíu bækur og komu upplýsingarnar frá mögrum heimildarmönnum, ekki síst frá leynierindreka þáverandi lögreglustjóra og einum tilteknum lögregluþjóni.

„Sést í bílum með Bretum og er með þeim á Hótel Borg. Hefur áður verið talin heiðvirð stúlka.“ „Er með hverjum sem er, sést með Bretum í skúmaskotum, ýmist fín í pels eða drusla, oft tekin úr skipum, alræmd skækja.“ Þetta eru tvö dæmi úr gögnum Jóhönnu þar sem fjallað er um konur sem hún taldi að væru í ástandinu.

Þór Whitehead segir að Jóhanna hafi tvímælalaust litið svo á að í því væru fólgin einhvers konar landráð að konurnar væru í samskiptum við útlendinga. „Afstaða hennar til þessarra kvenna var þar af leiðandi mjög fjandsamleg í eðli sínu. Auk þess taldi hún að þær væru sekar um siðferðisbrot. Sem sagt að öll samskipti við hermenn væru bæði óþjóðleg og ósiðleg.

Þetta voru auðvitað hreinar njósnir, það var hnýsast um kynlíf og um siðferði þessarra kvenna 800 til 1000 kvenna í Reykjavík með skipulögðum hætti,“ bætir Þór við. Hann kveðst telja að þessar njósnir séu þær umfangsmestu sem nokkurn tíma hafi verið stundaðar hér á landi um einkalíf fólks. „Og má segja að lögreglan hafi farið þarna langt út fyrir sitt hlutverk vegna þess að langmestur hluti þessara kvenna hafði út af fyrir sig ekki gert neitt af sér sem snerti lögin í landinu eða neitt slíkt hvað þá að þær ógnuðu öryggi landsins.“

Undirrót rannsóknarinnar er tvenns konar, segir Þór. Fólk óttaðist að samskipti kvenna við hermenn gætu hreinlega gert út af við þjóðina og hin ástæðan var pólitísk því þáverandi forsætis- og dómsmálaráðherra, Hermann Jónasson, óttaðist að hægt væri að finna höggstað á honum af því hann væri of eftirgefanlegur við herinn.

Svonefnd ástandsskýrsla var gerð 1941 byggð á gögnum Jóhönnu. Þar segir að lögreglan sé með á skrá 20 prósent af þeim konum sem séu í ástandinu eða 500. Miðað við fjölda kvenna 12 til 61 árs í Reykjavík þá þýddi það að 2.500 konur væru í ástandinu.

Nú bendir flest til þess að þær tölur séu út í hött. Í kjölfar ástandsskýrslunnar voru meðal annars sett lög um ungmennaeftirlit og ungar meintar ástandsstúlkur sendar á vinnuhæli í Borgarfirði. Það var fljótlega aflagt. Einar Arnórsson þáverandi dómsmálaráðherra sagði Jóhönnu upp störfum haustið 1944.