
Umfangsmesta aðgerð gegn spilavíti
Lögreglan réðst til atlögu upp úr miðnætti á þriðjudag við meint ólöglegt spilavíti, Poker and Play, í Skeifunni í Reykjavík. Aldrei fyrr hefur lögregla farið í jafn umfangsmikla aðgerð vegna gruns um rekstur ólöglegs spilavítis. Fjöldi lögreglumanna tók þátt í aðgerðinni og gerð var húsleit á þremur stöðum til viðbótar og lagt hald á búnað sem tengist fjárhættuspilum.
Átta voru handteknir í aðgerðum lögreglu en fjórir þeirra, þrír karlmenn og ein kona, öll á fertugsaldri, voru í gærkvöld úrskurðuð í gæsluvarðhald til föstudagsins í næstu viku. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er þetta í fyrsta skipti sem farið er fram á gæsluvarðhald vegna gruns um ólöglegt fjárhættuspil en málið er sagt umfangsmikið og að miklar fjárhæðir séu til athugunar.
Fjórmenningarnir eru grunaðir um brot á 183. og fjórðu grein hegningarlaga. Hámarksrefsing við þeim brotum varðar eins árs fangelsi en í lögunum segir að óheimilt sé að gera sér atvinnu af fjárhættuspilum eða afla sér tekna af spilum sem fara fram í húsnæði sem viðkomandi hefur til umráða.
Poker and Play er í fyrirtækjaskrá skráð sem áhugamannafélag sem ekki hafi tekjur af starfsemi sinni. Félagið er rekið fyrir frjáls framlög en öllum yfir átján ára aldri er heimil innganga í félagið samkvæmt samþykktum þess. Lögreglan telur þetta félag aðeins yfirskin fyrir rekstur ólöglegs spilavítis.