Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Umdeildur hornsteinn hæliskerfisins

Mynd: rúv / rúv
Kerfið virkar ekki og sú staðreynd að Evrópuríki beita Dyflinnarreglugerðinni með ólíkum hætti og brjóta gegn henni bætir ekki úr skák. Þetta er niðurstaða meistararitgerðar Guðrúnar Elsu Tryggvadóttur, í lögfræði við HR. Dyflinnarreglugerðin er hornsteinn samevrópska hæliskerfisins og hefur lengi verið umdeild.

„Það hafði talsvert verið skrifað um þessa reglugerð, Dyflinnarreglugerðina, en mig langaði að taka þetta skrefinu lengra og horfa sérstaklega á beitingu reglugerðarinnar og taka þá fyrir ákveðin lönd sem hafa verið í brennidepli, hafa mikið verið að taka á móti hælisleitendum og mikið verið að beita reglugerðinni. Ég valdi tvö lönd þarna alveg í suðrinu, þangað koma flestir, að ströndum Grikklands og Ítalíu. Svo valdi ég þessi vinsælustu ríki, sem flestir vilja fara til, Svíþjóð og Þýskaland.“ 

Lengi verið umdeild

Reglugerðin hefur lengi verið umdeild en Guðrún segir að nú beri meira á vanköntum hennar en áður. „Það er fleira fólk að koma, það er að koma úr öðrum áttum en áður og allt í einu leggst þessi mikli þungi á þessi ríki sem eru ekki með gott kerfi til að byrja með, til þess að taka á móti fólki. Það er að segja Grikklandi og Ítalíu, sérstaklega.“

Markmið Dyflinnarkerfisins var að sjá til þess að eitt aðildarríki bæri ábyrgð á umsókn hvers hælisleitenda. „Þá væri hægt að koma í veg fyrir það að fólk væri að leggja fram margar umsóknir í mismunandi löndum og að koma í veg fyrir að fólk væri án ríkis sem væri tilbúið að taka á móti því, væri bara in orbit eins og það er kallað á ensku. Það er í raun það sem er að gerast í dag, það eru margir sem eru bara einhvers staðar í Evrópu eða eru fastir á Ítalíu eða Grikklandi og enginn vill taka ábyrgð.“

epa05234081 Refugees and migrants sleep on railway tracks at a makeshift camp at the Greek - Macedonian border in northern Greece on 28 March 2016. Migration restrictions along the so-called Balkan route, the main path for migrants and refugees from the
Flóttamenn á brautarteinum nærri landamærum Makedóníu. Mynd: EPA
Í Grikklandi, 2016.

Margvísleg brot 

Rannsókn Guðrúnar leiddi í ljós að öll ríkin brjóta reglugerðina með einhverjum hætti. „Það eru ákveðin réttindi sem þessir aðilar eiga að fá meðan á umsóknarferli stendur eins og að fá aðstoð túlks, oft skilur fólk ekki hvað er að gerast. Og að fá aðgang að lögfræðingum. Það getur oft verið mjög erfitt, sérstaklega þar sem álagið er sem mest eins og á Grikklandi og Ítalíu. Fólk þar fær sjaldan aðstoð lögfræðings og ef svo eru þá eru það félagasamtök sem eru að grípa þar inn í. Svo eru réttindi barna ekki virt. Það á sérstaklega við um Ítalíu og Grikkland en líka Svíþjóð og Þýskaland, þar er ekki mannskapur í að taka á móti þessum börnum.“

Misjafnt hvernig reglum er beitt

Guðrún komst líka að því að reglugerðin veitir ríkjunum ákveðið svigrúm og þau nýta það til þess að beita henni með ólíkum hætti. Til dæmis er afar misjafnt hversu gjörn þau eru á að grípa til þess að hneppa umsækjendur um vernd í varðhald, til þess má einungis grípa ef nauðsyn krefur. „Þá er þetta ekki fangelsisvist heldur er verið að taka einstaklinga og koma í veg fyrir að þeir flýi áður en hægt er að senda þá til þess aðildarríkis sem ber ábyrgð á þeim. Þetta er eitthvað sem aðildarríkin eiga að taka á í sinni löggjöf og þetta hefur ekki verið gert nógu vel í sumum ríkjum og ekki verið gert með sama hætti. Þetta er bara gott dæmi um það hvernig reglugerðin hefði átt að taka betur á þessu.“

Þá fá hælisleitendur mislangan frest til þess að áfrýja ákvörðun um að þeir skuli sendir til annars ríkis, viku í Þýskalandi en tvær í Svíþjóð. „Þetta er mjög ólíkt og þetta skiptir miklu máli, til þess að geta leitað eftir aðstoð lögfræðings og undirbúið greinargerð.“

epa04933354 Hungarian police use water canons at the Horgos 2 border crossing between Serbia and Hungary near Horgos, northern Serbia,  16 September 2015. Hungarian police fire tear gas and deploy water cannon to push migrants away from a barricade at
Ungverjar beittu háþrýstidælum til að hrekja flóttamenn frá landamærunum í dag. Mynd: EPA - MTI
Landamæri Ungverjalands og Serbíu 2015. Flóttamenn fengu óblíðar móttökur hjá ungversku lögreglunni. Ungverjar reistu vegg á landamærunum og sættu gagnrýni fyrir að veita flóttamönnum ómannúðlega meðferð.

Áhersla á fingraför, ekki fjölskyldu

Guðrún segir að við beitingu reglugerðarinnar horfi ríki í Norður-Evrópu aðallega til þess hvort hægt sé að senda fólk til þess lands þar sem fingraförin voru tekin, ekki til ákvæðis um að senda fólk til þess lands þar sem nánir fjölskyldumeðlimir þess dvelja. Fjölskylduákvæðið eigi þó að vega þyngra en hitt. „Það hefur verið tekið mjög strangt á þessu og gerðar miklar kröfur til þess að einstaklingurinn geti sýnt fram á fjölskyldutengsl við þá sem eru staðsettir í öðrum Evrópuríkjum. Þetta átti ekki að vera svona til að byrja með og það kemur greinilega fram í reglugerðinni að þetta sé það mikilvægasta sem á að líta til. Þetta gerir það að verkum að ríki eins og Grikkland, sem hafa reynt að byggja á þessum ákvæðum, að reyna að koma fólki frá Grikklandi til annarra Evrópuríkja. Þetta hefur gert það að verkum að eina ákvæðið sem gildir er ákvæðið um hvar þú komst fyrst inn í Evrópu.“

Hvetur til þess að hælisleitendur brjóti reglurnar

Guðrún segir að stundum grafi reglugerðin beinlínis undan því sem henni er ætlað að tryggja. Hún hvetji ekki til samstarfs á milli Evrópuríkja og hvetji hælisleitendur til þess að virða reglurnar að vettugi. 

„Reglurnar taka ekki til greina hvað þetta fólk vill. Þegar þú kemur eitthvert og þú veist að ef fingraförin þín verða tekin þá verður þú alltaf sendur til baka til þess lands þar sem er lítil þjónusta og takmörkuð réttindi. Þú reynir náttúrulega að forðast að fingraförin þín verði tekin, forðast reglurnar og ná til annarra ríkja. Þetta er nákvæmlega það sem er að gerast,“ segir Guðrún. 

Dyflinnarreglugerð númer fjögur væntanleg

Nú er Evrópusambandið að endurskoða reglugerðina, semja fjórðu útgáfu hennar. Til stendur að bæta við hana ákvæðum um að flytja skuli fólk frá ríkjum sem of mikið mæðir á, til annarra Evrópuríkja, þar sem álag er minna. Þetta hefur verið reynt, með áætlun Evrópusambandsins frá árinu 2015 átti að dreifa fólki jafnar um álfuna en lítið hefur gerst. Ástæðan er tvíþætt að sögn Guðrúnar, í fyrsta lagi voru ríkin ekki tilbúin til þess að leggja sitt af mörkum og í öðru lagi voru hælisleitendur ekki alltaf ánægðir með það ríki sem átti að senda þá til, vildu ekki fara. Guðrúnu líst ekki á tillögur Evrópusambandsins. 

„Þetta finnst mér ekki gáfulegt, ætti ekki frekar að koma í veg fyrir að kerfið geri þetta, að það hlaði upp einstaklingum í ákveðnum ríkjum? Ég held það verði bara að breyta þessari hugmynd um að fyrsta ríkið sem einstaklingurinn kemur til sé ábyrgt. Hin ríkin eru ekki tilbúin til þess að taka á móti þessu fólki. Þau kasta bara ábyrgðinni aftur til Ítalíu og Grikklands og svo framarlega sem þessi ríki eru ábyrg mun þetta alltaf vera vandamál. Þó að það sé reynt að flytja þetta fólk eitthvert annað.“

Er kerfið þá stærra vandamál en það að ríkin skuli ekki fara eftir reglugerðinni? 

„Já, þetta virkar svona saman, til þess að þetta samevrópska hæliskerfi virki þá verða ríkin að beita þessum reglum eins, eða á eins líkan hátt og hægt er, en til þess að það gerist verðum við að hafa reglur sem eru raunhæfar, sem virka.“

epa05343251 A buoyancy aid lies on a beach where bodies of migrants washed up, in Zuwarah, west of Tripoli, Libya, 02 June 2016. According to media reports citing Red Crescent officials, at least 85 bodies have washed up onto Libyan beaches this week.
 Mynd: EPA
1,3 milljónir manna sóttu um vernd í Evrópusambandsríkjum árið 2015.
arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV