Umdeildar framkvæmdir ekki leyfisskyldar

27.04.2014 - 13:50
Mynd með færslu
 Mynd:
Umdeildar hitaveituframkvæmdir á Snæfellsnesi eru ekki framkvæmdaleyfisskyldar, samkvæmt úrskurði skipulags- og byggingarfulltrúa. Sveitarstjórn tekur úrskurðinn fyrir á morgun.

Mikið gekk á í Eyja- og Miklaholtshreppi á skírdag þegar lögregla var kölluð til vegna hitaveituframkvæmda, þar sem  félagsbúið að Miðhrauni II leggur hitaveitu á veghelgunarsvæði Vegagerðarinnar frá bænum Lynghaga að Miðhrauni II. Ásakanir gengu á víxl á milli þeirra sem stóðu að framkvæmdunum og annarra sem hafa reynt að koma í veg fyrir þær. Sveitarstjórn bannaði framkvæmdirnar en þeir sem stóðu að þeim fullyrtu að fundur hreppsnefndarinnar hefði verið ólöglegur. 

Nú hefur skipulags- og byggingarfulltrúi sveitarfélagsins aftur á móti  úrskurðað að framkvæmdirnar séu ekki framkvæmdarleyfisskyldar. Þær hafi ekki veruleg áhrif á umhverfið og ásýnd þess. Þá sé samanlögð vegalengd hitaveitulagna undir 10 kílómetrum, en lagnir þurfi að vera 10 kílómetrar eða lengri til að vera tilkynningaskyldar samkvæmt lögum.

Þeir sem standa að framkvæmdunum segja að aftur verði hafist handa í fyrramálið. Guðbjartur Gunnarsson, oddviti Eyja- og Miklaholtshrepps, segir að ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúans verði tekin fyrir á fundi hreppsnefndar á morgun og gerir ráð fyrir að hún verði staðfest.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi