Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Umdeildar fjárfestingar Kínverja

31.08.2011 - 16:28
Það er víðar á Norðurlöndum en á Íslandi sem Kínverjar láta að sér kveða. Kínverjar eru nú fjölmennasta innflytjendaþjóðin í Danmörku utan Evrópusambandsins. Í Svíþjóð hafa framkvæmdir kínverskra auðmanna vakið verðskuldaða athygli.

Sunnan við Gävle í Upplöndum hafa Kínverjar reist mikla ferðamanna- og menningarmiðstöð sem kallast Dragon Gate. Þar eru hótel og veitingahús, kínverskt torg og skóli í kínverskri bardagalist, safn með eftirlíkingum af her leirhermanna sem eru með þekktustu fornminjum í Kína og gríðarmikil stytta af gyðjunni Guanyin.

Áætlun er um að reisa Dragon City kínverska borg í nágreninu. Dregist hefur að opna hótelið þar sem það stenst ekki bygginarreglugerðir. Þá hafa Kínverjarnir brotið sænska vinnulöggjöf og hefur verið gert að greiða 1,1 milljón sænskra króna í sektir.

Byggt hefur verið án heimildar og  launasamningar hafa ekki verið gerðir við  kínverska starfsmenn.  Dargaon Gate-húsin hafa verið valin verst byggðu hús í Svíþjóð.

Þá situr borgin Kalmar í Smálöndum í Svíþjóð uppi með tugmilljóna króna ógreiddar skuldir eftir að þangað kom Kínverjinn Jinxing Luo og byggði 70 000 fermetra verslunar- og sýningahöll fyrir um eitt þúsund kínversk fyrirtæki sem átti að verða miðstöð viðskipta milli Evrópu og Kína.

Verkefnið átti að skapa 800 ný störf fyrir íbúa Kalmar, en þessi miklu húsakynni standa nú tóm. Kínverjinn Luo er sagður hafa átt erfitt með að flyta fé frá Kína. Vinnueftirlitið stöðvaði verkið þar sem ekki var farið eftir lámarksöryggiskröfum og í ljós kom  að kínverskir verkamenn fengu laun langt undir lögboðnu lágmarki.