Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Umdeild ummæli um Stígamót standa

05.05.2011 - 12:09
Mynd með færslu
 Mynd:
Formaður þjóðhátíðarnefndar Vestmannaeyja segir að umdeild ummæli sín um samtökin Stígamót standi. Hann segir trúnaðarbrest milli þjóðhátíðarnefndar og Stígamóta fyrir 17 árum ástæðu orða sinna um að vandamálin virðist vera fleiri og stærri þegar Stígamót eru á hátíðinni.

Ummælin hafa vakið mikla athygli frá því að þau féllu á borgarafundi fyrir viku, en þau féllu í kjölfar fyrirspurnar um af hverju samtökin Stígamót hefðu ekki aðstöðu á hátíðarsvæðinu í Herjólfsdal. Í kjölfar ummælanna sendi Páll frá sér yfirlýsingu þar sem hann ítrekaði að samtökin væru ekki hafin yfir gagnrýni þrátt fyrir að þau hafi unnið gott starf í baráttunni gegn kynferðisglæpum. Yfirlýsingin sagði hins vegar ekki alla söguna, þar var einungis vísað í aðkomu Stígamóta að þjóðhátíð fyrir nokkrum árum.


Vikublaðið Fréttir í Vestmannaeyjum fjallar í dag nánar um þjóðhátíð fyrir 17 árum undir fyrirsögninni „Trúnaðarbrestur varð 1994“. Þar er meðal annars fjallað um það að Stígamót hafi fyrir hátíðina varað við að hópur nauðgara væri á leið til Eyja.


„Ummælin standa. Ég get ekki vikið frá bæjarbúum eða þjóðhátíðinni sem slíkri og beðist afsökunar eins og krafan er alls staðar án þess að það sé skoðað hvað er að baki ummælunum,“ segir Páll Scheving Ingvarsson formaður þjóðhátíðarnefndar í viðtali við fréttastofu RÚV. Nánar verður rætt við Pál í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í dag.