Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Umdeild stærsta stytta heims rís á Indlandi

Mynd: Statue of unity / Statueofunity.in

Umdeild stærsta stytta heims rís á Indlandi

23.09.2018 - 11:00

Höfundar

Í lok næsta mánaðar verður hulunni svipt af stærstu styttu í heimi. Styttan stóra er rúmlega 100 kílómetra suðaustan við indversku borgina Ahmedabad í Gujarat-fylki og sýnir stjórnmálamanninn og sjálfstæðishetjuna Sardar Patel. Þarna stendur hann, sköllóttur í hefðbundnum indverskum fötum, hendur með síðum og horfir yfir héraðið sitt, Gujarat og Sardar Sarovar-stífluna, eina stærstu stíflu landsins.

Styttan verður formlega afhjúpuð 31. október og er 182 metrar á hæð. Það er á við fjórar og hálfa Kristsstyttu í Rio de Janeiro, tvær og hálfa frelsisstytta í New York (ef pallurinn undir henni er talinn með) eða tvær og hálfa Hallgrímskirkju og rúmlega 50 metrum hærra en næststærsta stytta heims, búddalíkneskið í vorhofinu í Lushan í Kína.

Styttan, sem hefur verið kölluð þjóðeiningarstyttan, Statue of Unity, er verk listamannsins Ram Vanju Sutar og núverandi forsætisráðherra landsins, Narenda Modi, pantaði hana 2013. Þessi umdeildi og íhaldssami forsætisráðherra er sérstakur áhugamaður um Patel þennan og hefur reynt að nota hann í hugmyndafræðilegri baráttu sinni fyrir hindúskri þjóðernisstefnu. Patel var ein af frelsishetjum Indlands í baráttunni fyrir sjálfstæði frá Bretlandi 1947 og fyrsti varaforsætisráðherra landsins í stjórnartíð Jawaharlals Nehrus.

Risastórt pólitískt tákn

„Hann var kallaður járnkarlinn og það var hans hlutverk að sameina í eitt ríki þessi 550 ríki sem Indland samanstendur af. Honum tókst það og dó svo þremur árum seinna árið 1950,” segir Guðjón Bjarnason arkitekt og myndlistarmaður sem hefur starfað á Indlandi.

„Hann var mjög hallur undir Nehru sem var aftur tengdur Ghandi og hugmyndinni um Indland sem fjölmenningarríki. Núverandi stjórnvöld, BJB-flokkurinn, hafa tekið Patel sérstaklega út sem sameiningartákn og tekið afstöðu hans upp á sína á arma. Það er þörfin fyrir samræmingu og sameiningu Indlands og þá undir formerkjum hindúa, ekki endilega Indlands sem fjölmenningarríkis heldur sem sérstaks trúarríkis hindúa.”

„Styttan er og verður pólitískt tákn,” segir Guðjón. „Patel hefur verið mikið notaður í stjórnmálabaráttu BJB-flokksins og hún verður vígð á 147 ára afmæli hans 31. október. Kosningar eru handan við hornið, snemma á næsta ári, og þá er þetta mikilvægt tákn í þeirri pólitískri baráttu sem er framundan,” segir Guðjón.

„Þessi stytta á sér margvíslegar tilvísanir. Þarna er verið að sýna fram á að Indverjar hafi mikinn kraft og mikla andlega burði. Næststærsta stytta í heimi verður nú vorhofið í Kína og Indverjar bera sig mikið við og etja kappi við Kínverja öllum stundum. Það mun hlakka í þeim að eiga loksins stærri styttu en Kínverjar.”

Enn stærri stytta af stríðskonungi

Styttan af Patel er ekki eina risastyttan sem til stendur að reisa á Indlandi um þessar mundir. Enn stærri stytta verður reist á lítilli eyju tvo kílómetra úti fyrir strönd Mumbai og er áætlað að hún verði risin 2021. Þetta er stytta sem sýnir 17. aldar stríðskonung, Shivaji. Styttan verður 212 metrar og undir henni verður bygging með safni, veitingastöðum, útsýnispalli og fleira. Shivaji situr á prjónandi hesti og lyftir sverði til himins í vígahug enda er það þannig sem hans er minnst, hann barðist gegn veldi hinna íslömsku Múgala.

„Nú vill þannig til að það er mikil kergja milli hindúa og múslima í dag. Að þeir séu að fagna stríðshetju sem vann múslima er af sama meiði og hin styttan. Indland er eins og stendur að stefna í áttina að því, ef Modi hlýtur áframhaldandi kosningu, að verða hindúskara ríki en áður var,” segir Guðjón.

Mynd með færslu
 Mynd: Special Arrangement - Shivaji smarak
Hugmynd af því hvernig styttan úti fyrir strönd Mumbai gæti litið út

Tengdar fréttir

Norður Ameríka

Mögulegar refsiaðgerðir kaupi Indverjar S-400

Erlent

Sakar Kínverja um að spilla viðræðum

Asía

Reyna að sporna gegn aftökum án dóms og laga

Fjölmiðlar

Árásir á fjölmiðla ógn við lýðræði