Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Umboðsmenn fá að skoða seðla í Fjarðabyggð

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Það skýrist ekki fyrr en seint í dag eða jafnvel í kvöld hvort úrslit og fall meirihlutans í Fjarðabyggð stendur. Meirihluti Sjálfstæðismanna og Framsóknar og óháðra féll með aðeins einu atkvæði í nótt og óskuðu Sjálfstæðismenn eftir endurtalningu.

Gísli M. Auðbergsson, formaður yfirkjörstjórnar í Fjarðabyggð, segir að kjörstjórn muni ekki telja atkvæðin aftur heldur muni umboðsmenn framboðanna fá að fara í gegnum kjörgögn og finni þeir eitthvað athugavert muni kjörstjórn skoða málið. Hann segir að tveir menn horfi á hvern kjörseðil og að fjöldi heildaratkvæða upp úr kjörkössum hafi stemmt við skráningar á kjörstað.

Hann býst við því að skoðun hefjist ekki fyrr en milli klukkan 15 og 16 í dag en erfitt sé að segja til um hvað hún taki langan tíma.

Talningin fór þannig fram að atkvæði voru flokkuð og tíu seðlar heftaðir saman og tíu slíkir bunkar settir í teygju. Samkvæmt því er eini möguleikinn á mistökum sá að atkvæði hafi verið ranglega flokkað eða að mistalið hafi verið í bunka. Þá þurfti að hafa verið oftalið í einn og mistalið í annan. Þá voru 75 atkvæði auð eða ógild og mögulega gera umboðsmenn athugasemdir við úrskurð kjörstjórnar um ógildingu. Ef svo er úrskurðar kjörstjórn að nýju ef tilefni þykir til.

Fjarðalistinn náði fjórum mönnum inn eða 34% atkvæða. Sjálfstæðismenn í Fjarðabyggð töpuðu nánast þriðjungi af sínu fylgi og hlutu 25%, Framsókn og óháðir hlutu 23% og báðir flokkarnir töpuðu einum manni. Miðflokkurinn hlaut 17% atkvæða og náði einum manni inn. Sjálfstæðisflokk vantaði aðeins eitt atkvæði til að þriðji maður á lista þeirra, Ragnar Sigurðsson, næði inn á kostnað fjórða manns Fjarðalistans, Einars Más Sigurðssonar.

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV