Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Umboðsmaður krefur Útlendingastofnun svara

15.12.2015 - 11:52
Mynd með færslu
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis. Mynd: Karl Sigtryggsson - RÚV
Umboðsmaður Alþingis vill að Útlendingastofnun svari því hvernig stofnunin rannsakar umsóknir um svokölluð mannúðarleyfi af heilbrigðisástæðum. Sérstaklega þegar umsækjandi er barn.

 

Tilefnið er umfjöllun í fjölmiðlum um brottflutning tveggja albanskra fjölskyldna í liðinni viku. Langveikt barn er í báðum fjölskyldunum. Önnur fjölskyldan hafði óskað eftir dvalarleyfi af mannúðarástæðum vegna heilsufars barnsins, en því var hafnað.  

Umboðsmaður sendi Útlendingastofnun bréf í gær þar sem óskað er eftir almennum upplýsingum um málsmeðferð og rannsókn umsókna um svokölluð mannúðarleyfi af heilbrigðisástæðum. Sérstaklega er óskað eftir upplýsingum um þessi atriði þegar umsækjandi er barn.

Gæta verði mannúðarsjónarmiða

Í Útlendingalögum segir í grein 12.f, að veita megi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, til dæmis af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Réttargæslumenn fjölskyldnanna tveggja töldu að vegna veikinda drengjanna, annar er með hjartagalla og hinn slímseigjusjúkdóm, ætti að veita þeim dvalarleyfi. Útlendingastofnun féllst ekki á það þar sem henni hefði tekist að sýna fram á að drengjunum væri tryggð heilbrigðisþjónusta í Albaníu. „Þegar kemur að sjúkdómum og heilbrigðisástæðum þá skoðum við hvaða þjónusta er í boði í viðkomandi ríki. Ef hún er til staðar þá er ekki fallist á að mannúðarsjónarmið eigi við, “ sagði Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, þegar hún útskýrði rannsóknina í fréttum fyrir helgi. Deilt er um hvort rannsókn Útlendingastofnunar hafi verið nægilega ítarleg. 

Kannar grundvöll athugunar að eigin frumkvæði 

Umboðsmaður óskar eftir upplýsingunum til þess embættið tekið afstöðu til þess hvort tilefni sé til að umboðsmaður hafi frumkvæði að því að taka almenna framkvæmd Útlendingastofnunar í slíkum málum eða einstaka þætti hennar til athugunar. Afrit af bréfinu var sent innanríkisráðherra og allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis til upplýsinga.

Reglur um meðferð mála í stjórnsýslunni kveða á um að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Innanríkisráðherra ritaði á föstudaginn bréf til Útlendingastofnunar sem er efnislega sambærilegt við bréf Umboðsmanns. Þar var þess óskað að stofnunin gerði grein fyrir því hvernig rannsókn á heilbrigðisaðstæðum fer fram, annars avegar á aðstæðum einstaklinga og hins vegar á aðstæðum í heimaríki þeirra.

Ráðuneytið krefst einnig svara

Ráðuneytið óskaði einnig eftir því að Útlendingastofnun taki fram telji stofnunin tilefni til að gera úrbætur á atriðum er varða ofangreint og með hvað hætti ráðuneytið geti ljáð því verkefni atbeina sinn.

Umboðsmaður óskar einnig eftir því að Útlendingastofnun veiti upplýsingar um allar umsóknir um mannúðarleyfi af heilbrigðisástæðum frá 2010 þegar núgildandi lög tóku gildi og að upplýsingar og gögn berist embættinu ekki síðar en 15.janúar.