Um víðlendur mannlegs eðlis, á fund morðingja

Mynd: Luis Ascenso / Flickr

Um víðlendur mannlegs eðlis, á fund morðingja

07.04.2019 - 14:54

Höfundar

Ég sit á Keflavíkurflugvelli og bíð eftir flugi til Amsterdam en þaðan liggur leiðin til Lissabon. Leifsstöð er þétt setin, ég borga allt of mikinn pening fyrir samloku og kaffi, tylli mér við laust borð og dreg bókina Flights, eftir pólska rithöfundinn Olgu Takarzcuk, upp úr töskunni.

Tómas Ævar Ólafsson skrifar

Bókin hlaut hin mikilsvirtu alþjóðlegu Man Booker-verðlaun árið 2018. Bók sem fjallar um ferðalög á 21. öldinni. Bók sem er þar af leiðandi tilvalið að hafa með sér í ferðalag því hún ferðast með manni á milli flugvalla, lestarstöðva, strætisvagna, borga og bæja. Kaflarnir eru brotakenndir og þessi litlu brot flakka á milli ferðalaga sögumanns og sagnfræðilegra viðburða sem tengjast allir á einhvern hátt líffærafræði. Einnig koma fram glefsur úr fyrirlestrum er varða nýtt fag í heilbrigðisvísindum sem nefnist ferðasálfræði. Sögumaður bókarinnar virðist vera að setja fram nýja sýn á manneskjuna. Manneskju á hreyfingu. Manneskju á flakki. Hana langar að skilja manninn ekki sem heild eða brot heldur eftir hreyfanlegum línum, sem viðburði á mörgum mismunandi sviðum og í hinum ýmsu þéttleikum. 

Línur, svið og þétting

Þegar ég geng út úr flughöfninni í Lissabon eftir langt flug er Olga Tokarczuk búin að smita mig og í þessum og næstu tveimur pistlum langar mig að láta reyna á aðferðir hennar og bjóða ykkur með í skoðunarferðina. Við skoðum manninn á hreyfingu eftir línum, sviðum og þéttleika. Þetta krefst þess að við heimsækjum nokkra forvitnilega og jafnframt óþægilega staði en gluggum einnig í nokkrar sögulegar og fræðilegar glefsur til að fá víðara sjónarhorn á þennan viðburð sem við nefnum manneskju. Og við byrjum ofan á vatnsveitubrú í Lissabon. 

epa05849841 Polish writer Olga Tokarczuk poses for photographs during the London Book Fair, in London, Britain, 15 March 2017. The LBF runs from 14 to 16 March.  EPA/FACUNDO ARRIZABALAGA
 Mynd: EPA
Pólski rithöfundurinn Olga Tokarczuk

Dauðabrúin

Við stöndum á göngustíg vatnsveitubrúar í um 60 m hæð og virðum fyrir okkur borgina. Þetta er örlítið lægra en Hallgrímskirkjuturn og útsýnið er laglegt. Pastellitaðar blokkir, borgargróður, lestarteinar og hraðbraut með þungri og stöðugri umferð. Brúin er í gotneskum stíl, byggð á 18. öld og er svo traust að hún stóð af sér hinn mikla jarðskjálfta sem jafnaði mestalla Lissabon við jörðu árið 1755. Einkenni brúarinnar eru endurteknar arkir sem tróna yfir byggingunum og hraðbrautunum. Göngustígurinn sem fylgir vatnsleiðsluhúsinu getur leitt okkur inn í miðja borgina eða lengst norður í sveit. En á þessum göngustíg leynist myrkur. 

Á árunum 1836 til 1840 gekk yfir hrina sjálfsmorða yfir Lissabon, eða svo hélt lögreglan allavega. Fjársnauðir bændur, sem nýttu sér göngustíg vatnsleiðslubrúarinnar til og frá vinnu, virtust bregða á það ráð að kasta sér fram af og binda þannig enda á hið eilífa vonleysi sem fylgdi fátæktinni. Og þessi grunur lögreglunnar var svo sem á rökum reistur.

Morðingi gengur laus

Það hefði kannski ekki komið sérstaklega á óvart að örvæntingarfullur bóndi sem selt hafði illa á markaðinum hefði kastað sér fram af. Síðan er gjarnan sagt að sjálfsmorð séu smitandi þannig að aðrir bændur hafi í kjölfarið fetað sömu slóð. En það skrýtna var að lögreglu bárust reglulega ábendingar frá óbreyttum borgurum um að þessi sjálfsmorð væru alls engin sjálfsmorð heldur einfaldlega morð framin af hinum alræmda Diogo Alves og klíku hans. Lögreglan leiddi þessar vísbendingar alveg hjá sér og skipti sér ekki af Alves og klíkunni fyrr en þeir rændu og myrtu efnaða fjölskyldu í Chiado-hverfi Lissabon. Þá voru vatnsveitubrúarmorðin orðin um 70 talsins. Glæpagengið var handtekið og dæmt fyrir morðið á fjölskyldunni. Diogo Alves var dæmdur til dauða en klíkan að mestu send í samfélagsvinnu í nýlendum Portúgals. Taka ber fram að meint sjálfsmorðshrina við brúnna leið undir lok um leið og klíkan var handsömuð. 

Mynd með færslu
 Mynd: - - Marteinn Sindri Jónsson
Höfuðlagsfræðingarnir töldu sig geta mælt persónuleikaeinkenni eftir þykkt og lögun heilans

Höfuð raðmorðingjans

En það er hérna sem sagan verður áhugaverð og fer að skipta okkur máli. Vegna þess að á því augnabliki sem Diogo Alves var hengdur skapaðist tækifæri til að skilja manneskjuna eftir línum, sviðum og þéttleika. Svo skemmtilega vill til að það var önnur klíka sem fylgdist grannt með þessum réttarhöldum. Þetta voru alvarlegir karlar í hvítum sloppum sem fylltu út leyfi og reyndu að næla sér í smá hold.

Og viti menn! Portúgalskir dómstólar féllust á bón þessara manna og þeim var gefið höfuð Diogo Alves. Þessir alvörugefnu karlar í hvítu sloppunum voru svokallaðir höfuðlagsfræðingar sem duttu svo sannarlega í lukkupottinn þegar þeir fengu kollinn af siðlausa raðmorðingjanum. Við skulum setja okkur í þeirra spor og reyna að skilja hvað þeir hugðust gera við mannshöfuðið. 

Persónuleikalíffærin

Fyrsta verkefnið var líklega að draga líkið inn á rannsóknarstofu og koma fyrir nokkuð einkennilegu þykktarmælitæki á höfði morðingjans. Tækið leit út eins og nokkurs konar hjálmur búin til úr vírum og mældi hann jöfnur og ójöfnur á yfirborði höfuðsins og úr ójöfnunum túlkuðu þeir mismunandi persónueinkenni. Þeir trúðu því að heilinn væri í raun samsetning margra mismunandi líffæra, þar sem hvert líffæri fór með hlutverk ákveðinna hugrænna eiginleika. Eiginleika á borð við trúrækni, þrælslund, meðvirkni, rökfestu, tónlistarhæfileika, tungumálafærni o.s.frv. 

Þeir töldu að hægt væri að staðsetja hvert persónueiginleikalíffæri fyrir sig. Réttlætiskenndina mátti til dæmis finna upp við gagnaugað og ef ójafna eða lítill nabbi fannst þar var talið að réttlætislíffæri heilans væri í góðu formi, væri nokkuð massað, og manneskjan því afar réttvís. Ástina mátti finna aftast í kollinum þar sem mænan tengist heilanum en góðvildin hvíldi efst á enninu.

Höfuðlagsfræðingarnir sem rannsökuðu Diogo Alves huguðu líklega helst að svæðinu fyrir ofan og á bak við eyrað, en þar hvíla hæfileikar mannsins til eyðileggingar, átaka og leyndar. Ef kenning þeirra reyndist sönn ætti þessi raðmorðingi að vera með íturvaxin þykkildi á bak við og fyrir ofan eyrun. 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia
Sankta Maríu spítalinn í Lissabon, heimili heilans

Siðlaus heili fær nýtt heimili

Eftir að hafa mælt ójöfnur höfuðkúpunnar að utan héldu fræðingarnir líklega áfram inn í líkið. Þeir skáru burt búkinn og opnuðu höfuðið. Þeir drógu heilann úr og krufðu til mergjar til að gaumgæfa hvort siðlaus heili vaxi á annan hátt en heili siðsamra og dyggðugra manna. Niðurstöður þessarar krufningar á Diogo Alves er erfitt að finna ritaða á internetinu en í slíkri leit má hins vegar finna eftirstöðvar rannsóknarinnar.

Höfuð Diogo Alves var nefnilega varðveitt í formalíni og hvílir nú á Santa Maríu-sjúkrahúsinu í Lissabon. Það er því tilvalið að kíkja í heimsókn og hitta þennan siðlausa raðmorðingja, virða fyrir okkur höfuðlagið og athuga hvort sjá megi ójöfnur á bak við eða fyrir ofan eyrun. Skellum okkur í strætó. 

Á meðan við rúllum í vagninum til morðingjans tel ég gott að setja þessar sögulegu glefsur í samhengi við skilningsleit okkar á manninum. Eins og Olga Tokarzcuk viljum við skilja manneskjuna eftir línum, sviðum og þéttleika.  

Hættulegur höfuðlestur

Diego Alves og klíka hans brutu og beygðu hinar ýmsu lagalegu línur samfélagsins. Markmið þeirra var að verða sér út um peninga og þannig mætti segja að þeir hafi starfað heldur gróflega á sviði hagkerfis og viðskipta við glæpi sína. Þéttleiki þeirra peninga sem klíkan safnaði saman var líklega orðin töluverð en einnig þéttleiki þeirra glæpa sem þeir höfðu framið. Þannig að hér er komið ágætis mengi til að skilja glæpi þeirra röklega.

Þegar á hins vegar að skilja forsendur þeirra til þess að ganga yfir þessar lagalegu línur er mögulegt að beina sjónum að höfuðlagi þeirra og sjá hvort þar má finna þykkildi eða þéttingar sem benda til þess að ákveðin svið hugrænna eiginleika séu ágengari en önnur eins og tilhneiging til eyðileggingar, átaka eða leyndar. Þegar kemur að línum höfuðlagsfræðinnar skapast þó örlítil hætta. 

Hættan felst í að draga fólk í umdeilda dilka. Að flokka fólk yfirborðskennt eftir persónueinkennum sínum. Að dæma fólk bókstaflega eftir útliti. Dæmi eru um að vinnuveitendur hafi sent atvinnuumsækjendur í höfuðlestur til að tryggja það að starfsfólk væri ekki árásargjarnt og þjófótt. Og þessum fræðum hefur einnig verið beitt til þess að sundurgreina kynþætti eins og frægt atriði úr kvikmyndinni Django Unchained sýndi fram á. Taka ber enn fremur fram í þessum pistli að þessi fræði eru talin til gervivísinda. Línurnar eru til staðar, en þær draga umdeild mæri. 

Strætóinn nálgast Santa Maríu-sjúkrahúsið, en heimsóknin til raðmorðingjans verður að fá að bíða þar til í næstu viku, hér í Lestinni.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Caiazzo heilkennið

Bókmenntir

Þýðingar og endursköpun: Hómer í nútímanum

Bókmenntir

Brandarar handa byssumönnunum - Mazen Maarouf

Bókmenntir

Mazen tilnefndur til alþjóðlegu Man Booker