Um þverfagleika þýðinga á textum um jökla

Mynd: Þorvarður Árnason / Þorvarður Árnason

Um þverfagleika þýðinga á textum um jökla

13.01.2018 - 10:00

Höfundar

Það var ekkert áhlaupaverk fyrir enska þýðandann Julian D´Arcy að þýða bókina Jöklar á Íslandi eftir Helga Björnsson. Í texta bókarinnar er ótal sviðum náttúrufræða, lista og menningar blandað saman og vísað í skáldskap jafnt sem fræðitexta frá ólíkum tímum. „Jöklar á Íslandi eru nefnilega ekki bara mælingar og tölfræði heldur lifandi og virk fyrirbæri í sögu, minningum og daglegu lífi sem og í vitund, hugsunum, sálum okkar.“

Bókin Jöklar á Íslandi eftir Helga Björnsson er glæsilegt og afar yfirgripsmikið verk þar sem ekki einvörðungu náttúrufyrirbærinu jökli og þróun íslenskra jökla í aldanna rás eru gerð skil heldur má í bókinni einnig lesa um litríkar hugmyndir manna um jökla og rannsóknir á þeim í gegnum tíðina.

Í bókinni er þannig að finna texta víða að, úr náttúrfræðum jafnt sem fornsögum, frásögnum ýmsum og þjóðsögum, dagbókum manna sem og annálum, skáldsögum og ljóðum. Í þessu mikla verki blandast með öðrum orðum náttúruvísindi, sagnfræði, bókmenntafræði og fjölmargar aðrar fræðigreinar. Svo breið nálgun er ekki algeng í fræðilegum bókmenntum á alþjóðavettvangi og voru sérlegir útgefendur fræðibóka síður en svo ginkeyptir til að gefa út slíka bók. Það vöknuðu enda fjölmargar spurningar þegar kom að því að þýða bókina, eins og t.d. hver getur þýtt bók sem inniheldur vísindatexta jafnt sem fornar og nýjar frásagnir og skáldskap. Hver getur þýtt bæði jöklafræðilega texta og Eddu kvæði?

Á endanum þýddi enski bókmenntafræðingurinn og þýðandinn Julian D´Arcy verkið.

Mynd með færslu
 Mynd: Þorvarður Árnason
Julian D´Arcy heldur fyrirlestur á jöklaráðstefnu. Mynd: Þorvarður Árnason

Julian D´Arcy greindi í fyrirlestri sínum frá þeim ótal krókaleiðum sem þetta þýðingarverkefni hafði í för með sér. Til dæmsis segir hann frá skýrslu Nils Harboe, dönskum útsendara konungs, frá árinu 1752. Árið 1966 hafði Steindór Steindórsson þýtt skýslu Harboe og Helgi Jónsson notaði þýðingu Steindórs í sinni bók. Julian D´Arcy ákvað að fara að dæmi Helga og notfæra sér að ýmsir textanna sem Helgi notar í sinni bók voru tiltækir í enskum þýðingum. Í tilviki skýrslu Harboes var til að mynda til ensk þýðingu textans frá árið 1758. Við samanburð þessara tveggja þýðinga kom hins vegar í ljós að þær voru alls ekki samhljóða. Þýðing inniheldur jú ævinlega líka túlkun þýðandans á efninu og anda þess tíma sem þýðingin er unnin.

Julian sagði frá fleiri vafamálum sem hann þurfti að taka afstöðu til. Til að mynda eftir því hvort það voru íslenskir eða erlendir jöklafræðingar sem vitnað var í, vísindamenn frá átjándu og byrjun nítjándu aldar eða tuttugustu aldar vísindamenn sem hafa tileinkað sér tungutak jöklafræða, sem þá var orðin sérstök grein jarðvísinda.

Jöklar á Íslandi eftir Helga Björnsson kom út árið 2009 og fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðibóka og bóka almenns eðlis árið 2010. Ensk þýðing Julians D´Arcy The glaciers of Iceland: a historical, cultural and scientific overview kom út árið 2016 hjá Springer forlaginu.

Á meðan Julian D´Arcy vann að þýðingu sinni urðu þrjú eldgos á Íslandi, sem gerði að verkum að endurskrifa þurfti nokkra kafla bókarinnar. Julian ákvað ennfremur að breyta kaflaskipan verksinss sem og röð jöklanna. Bók Helga endar á umfjöllun um Snæfellsjökul og Drangajökul. Julian ákvað í sinni þýðingu að leiða Vatnajökul síðastan fram á sjónarsviðið sem eins konar hápunkt, konung jöklanna íslensku