Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Um þetta snúast kosningarnar að mati leiðtoga

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Forystumenn þeirra 12 flokka sem bjóða fram í þingkosningunum þann 28. október fengu eina mínútu í upphafi Leiðtogaumræðunnar, sem sýndar voru í beinni útsendingu á RÚV, til að segja sína skoðun á því um hvað kosningarnar eiga að snúast.
Mynd: RÚV / RÚV
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sagði að staðan á Íslandi væri góð en ekki væri verið að takast á við nauðsynlega uppbyggingu í heilbrigðismálum, skólakerfinu og ófremdarástand í húsnæðismálum.  „Þetta er ein af þeim þversögnum sem við verðum að takast á við.“ 

Mynd: RÚV / RÚV
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, sagði síðustu ríkisstjórnina hafa sprungið vegna skorts á gagnsæi og opnum vinnubrögðum. Og þetta væri kannski í fyrsta skipti sem mannréttindi sprengja stjórn en ekki efnahagsmál. „Það er augljóst að stjórnmálastéttin þarf að læra að vinna saman.“ Kosningar væru lýðræðishátíð og tækifæri almennings í landinu til að styðja við stefnur og framtíðarsýn.

Mynd: RÚV / RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði fráfarandi ríkisstjórnin ekkert hafa gert í átta mánuði. „Enn er óleyst vandi heilbrigðismálanna og ungs fólks sem á erfitt með að koma þaki yfir höfuðið á sér,“ sagði Sigurður Ingi. Þær snúist einnig um traust á stjórnmálum en stjórnmálamenn þurfi að axla meiri ábyrgð.

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar. - Mynd: RÚV / RÚV
Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar.

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, sagði velferðina ekki mega vera tekna að láni. „Við þurfum að hafa hugrekki og þor til að geta látið velferðarsamfélagið standa undir kerfisbreytingum.“ Kosningarnar snúist líka um traust, að það sé gegnsæi og að trúnaður sé haldinn

Mynd: RÚV / RÚV
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að það væri kosið aftur núna vegna þess að stjórnmálin væru ekki að virka. „Þessar kosningar snúast um það hvort menn ætli að snúa af þeirri braut sem hefur mörkuð eða hvort fólk ætli að spyrja sig að því hvernig hafi gengið þrátt fyrir pólitískan óróa. Og hvort það hafi ekki bara gengið nokkuð vel.“ Þetta sé uppgjör við þann árangur sem hafi náðst á undanförnum árum.

Mynd: RÚV / RÚV
Guðmundur Þorleifsson frá Íslensku þjóðfylkingunni

Guðmundur Þorleifsson frá Íslensku þjóðfylkingunni sagði kosningarnar snúast um það að þeir sem voru kosnir síðast væru ekki færir um að vera í ríkisstjórn. „Þetta snýst um öryrkja og aldraða, heimili fyrir fólki en ekki síst um útlendingamál. Þar sem ómældur kostnaður fer í að greiða fyrir efnahagsflóttamenn.“

Mynd: RÚV / RÚV
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði kosningarnar snúast um almenning. „Þær snúast um það, að almeningur í landinu, fái að lifa með reisn. Fyrst og síðast þurfum að byggja á trausti og trú,“ sagði Inga. Markmið flokksins væri að útrýma fátækt þannig að allir gætu lifað sáttir „í fallega landinu okkar.“

Mynd: RÚV / RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins,  sagði kosningarnar snúast um einstakt og óvænt tækifæri til að halda áfram þeirri vinnu sem unnin hefði verið 2013 til 2016. „Og fara í seinni hluta þeirrar áætlunar og skila árangrinum áfram til þeirra sem eiga hann.“  Allt yrði þetta auðveldara ef farið yrði eftir þeirri áætlun sem sýnt væri að virkaði í stað þess að fara í einhverja tilraunastarfsemi.   

Mynd: RÚV / RÚV
Þórhildur Sunna, þingmaður Pírata

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata,  sagði að kosningarnar ættu að snúast um framtíðina en til þess að svo yrði, yrði að fara fram uppgjör. „Uppgjör við úrelt kerfi sem vinnur ekki í takti við réttlætiskennd almenning. Uppgjör við freku karlana sem alltaf ráða og uppgjör við valdafólk sem leynir almenningi upplýsingum til að vernda eigin hagsmuni.“

Mynd: RÚV / RÚV
Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar

Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar, sagði að hlut af þeirri ástæðu að kosið væri nú væri kreppa auðvaldsins. „Í raun og veru ríkir kreppa á Íslandi. Það er mikill ójöfnuður. Það er góðæri hjá auðstéttinni en það er útbreidd fátækt, meðal annars hjá þeim sem settir voru út á gaddinn eftir hrunið.“  Kosningarnar verði að snúast um uppgjör við markaðshyggjuna sem hafi ríkt hér um árabil. 

Mynd: RÚV / RÚV

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar,  sagði að kosið væri núna að vegna þess að hér hefði orðið rof. „Við erum að velja okkur garðyrkjufólk. Ætlum við að fá fólk til að tjasla í þjóðartréið eða ætlum við að fara að huga að stofninum og vökva blómið.“ Kosningarnar eigi að snúast um að byggja upp velferðarsamfélag að hætti Norðurlandanna. „Við þurfum líka að fá ráðrúm til að tala um framtíðina.“

Mynd: RÚV / RÚV

Pálmey Gísladóttir frá Dögun sagði að skorta heildstæða stefnu frá þeim stjórnmálamönnum sem ættu að sæti á Alþingi. „Það er skortur á heiðarleika og upplýsingagjöf en líka skortur á virðingu fyrir fólkinu í landinu.“ Kosningarnar eigi að snúast um það hvort flokkarnir séu reiðubúnir til að byggja þjóðfélagið upp á nýtt.  Húsnæðismálin væri með eindæmum og fullt af fólki lifði undir fátæktrarmörkum. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV