Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Um það bil 240 rauðir Kia Rio bílar skráðir

16.01.2017 - 17:59
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á höfuðborgarsvæ?
Um það bil tvöhundruð og fjörtíu rauðir Kia Rio bílar hafa verið skráðir á Íslandi. Þetta segir Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju, sem flytur Kia bíla inn til Íslands. Hann segir að miðað við myndir sem lögreglan sendi fjölmiðlum líti út fyrir að bíllinn sé af tiltekinni undirgerð. Sé það rétt, fækki það mögulegum bílum niður í hundrað til hundrað og fimmtíu stykki.

1.363 Kio Rio eru skráðir á Íslandi. Af þeim, eru um 240 rauðir. Jón Trausti segir að umboðið sé með lista yfir alla þá sem keypt hafi bíl af þeim. Hann segir að umboðið hafi boðið lögreglu aðstoð sína við að bera kennsl á bílinn. Hann segir gerðar hafi verið útlitsbreytingar á Kia Rio árið 2014. Fái umboðið betri mynd í hendur sé hægt að greina hvaða árgerð bíllinn sé. Það geti þrengt leitina að honum verulega.

Jón Trausti segir að nokkrar bílaleigur eigi Kia Rio og að umboðið sé með lista yfir þær. Óski lögregla eftir því, muni þeir að sjálfsögðu láta þeim allar upplýsingar í té.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskaði eftir því að ökumaður Kia Rio bifreiðar, sem sást á öryggismyndavélum við Laugaveg 31 aðfaranótt laugardags, á sama tíma og Birna Brjánsdóttir, tvítug stúlka sem nú er leitað, var þar á ferð, hafi samband við lögreglu. Ökumaðurinn kunni að búa yfir upplýsingum sem gangast geti við leitina að Birnu.

Á blaðamannafundi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sagði Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn að ein skýringin á því að ökumaður rauða Kia Rio hafi ekki gefið sig fram kunni að vera að hann hafi ekki verið Íslendingur. Þess vegna verði send út tilkynning til fjölmiðla á ensku síðar í kvöld. Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri, segir mikinn kraft í rannsókn málsins.