Um milljón börn alvarlega vannærð í Afríku

17.02.2016 - 06:20
Erlent · Afríka · UNICEF
A small child in her mother's arms at the Yirba Health Clinic in Sidama, about 200kms south of Addis Ababa, Ethiopia, 28 May 2003. Bob Geldof visits the feeding center run by UNICEF in an attempt to draw some attention to Ethiopia's current
 Mynd: EPA
Nærri ein milljón barna í suður- og austurhluta Afríku þjást af alvarlegri vannæringu vegna þurrka og veðurfyrirbærisins El Nino að sögn Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF. Matar- og vatnsskortur blasir við börnum á svæðinu. Fjölskyldur sleppa máltíðum og selja eigur sínar vegna hækkandi verðs.

Skilgreiningin á alvarlegri vannæringu er mikið hungur sem veldur mjög lágri þyngd miðað við hæð, sjáanleg rýrnun eða tregða við að losa líkamann við vökva.

Leila Gharagozloo-Pakkala, svæðisstjóri UNICEF, segir að þrátt fyrir að El Nino muni að lokum dvína muni áhrifa hans gæta gagnvart börnum á svæðinu næstu ár. Stjórnvöld séu að gera sitt besta en ástandið hafi aldrei verið eins slæmt og nú. Líf barnanna ráðist af þeim aðgerðum sem ráðist verði í strax í dag.

UNICEF segir 87 milljónir dala, jafnvirði rúmlega 11 milljarða króna, þurfa til þess að bæta ástandið í Eþíópíu, en talið er að fjöldi þeirra sem þarf á hjálp að halda í landinu hækki úr tíu milljónum í 18 milljónir á þessu ári. 26 milljónir dala þarf í Angóla og 15 milljónir í Sómalíu. Lesótó, Simbabve og meirihluti Suður-Afríku hefur lýst yfir neyðarástandi vegna þurrka. 

Í Malaví er hætta á að allt að 2,8 milljónir muni svelta á árinu vegna skorts á matvælum. Ástandið hefur ekki verið verra í landinu í níu ár. Tvöfalt fleiri þjást af alvarlegri vannæringu þar í landi en fyrir tveimur mánuðum síðan.
Sameinuðu þjóðirnar greindu frá því í janúar að hætta væri á að 14 milljónir íbúa í suðurhluta Afríku gætu soltið vegna langvarandi þurrkatímabils. 

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi