Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Um margnota bökunarpappír

02.11.2015 - 15:30
Mynd: - / www.gbcontacts.com
Danir hafa verið nokkuð vakandi í að fylgjast með notkun skaðlegra efna í neytendavörum. Stefán Gíslason ræðir um margnota bökunarappír í pistli sínum í dag í ljósi nýlegra fregna frá Danmörku

Bökunarpappír

Í nýliðnum mánuði birtu dönsku neytendasamtökin TÆNK niðurstöður rannsóknar sem gerð var á efnainnihaldi pizzukassa. Skoðaðir voru þrenns konar kassar og reyndust þeir allir innihalda heilsuspillandi flúorsambönd langt yfir viðmiðunarmörkum, auk annarra varasamra efna. Umrædd flúorsambönd hafa verið í sviðsljósinu af og til síðustu mánuði, m.a. í tengslum við þá ákvörðun Coop-verslananna að hætta sölu á örbylgjupoppi í öllum 1.200 verslunum fyrirtækins í Danmörku vegna hræðslu við áhrif hormónaraskandi flúoraðra efna í umbúðunum. Sú ákvörðun var tekin í framhaldi af rannsókn vísindamanna frá Syddansk Universitet sem sýndi auknar líkur á fósturláti hjá konum með mikið magn flúorsambanda í blóði. Heilsuspillandi flúorsambönd hafa líka fundist í svokölluðum bollakökuformum og fleiri matarumbúðum, svo sem í pappír utan um hamborgara á skyndibitastöðum sem eru svo miklir skyndibitastaðir að þar er enginn tími til að nota borðbúnað.

 

Allar þær matarumbúðir sem hér hafa verið nefndar eiga það sameiginlegt að hrinda frá sér fitu og vatni – og það eru einmitt þessi margnefndu flúorsambönd sem gefa þeim þennan eftirsóknarverða eiginleika. Flúorsamböndin sem um ræðir eru mörg og margvísleg en þau eiga það öll sameiginlegt að vera annað hvort polý- eða perflúoraðar kolefniskeðjur. Þetta eru nánar tiltekið stórar sameindir með mörgum kolefnisfrumeindum tengdum saman í eina keðju með fjöldan allan af flúorsameindum hangandi utan á. Pólýflúoruð efni mætti allt eins kalla fjölflúoruð á íslensku, en forskeytið „pólý-“ eða „fjöl-“ vísar til þess að mörg flúoratóm sé tengd kolefniskeðjunni. Þar gætu hins vegar einhverjar aðrar frumeindir eða efnahópar líka komið við sögu. Perflúoruð efni eru hins vegar alflúoruð ef svo má að orði komast, því að þar hanga flúorfrumeindir á öllum tiltækum tengjum, sem eru vel að merkja tvö á hverri kolefnisfrumeind og eitt til viðbótar á hvorum enda keðjunnar.

 

Efnið PFOA (eða perflúoroktansýra) er það flúorsamband sem mest hefur komið við sögu í umræðunni um fitufráhrindandi matarumbúðir upp á síðkastið. Þetta efni hefur lengi verið notað í þessum tilgangi, en á síðustu árum hefur mönnum smám saman orðið ljóst að það safnast fyrir í líkömum manna og dýra, svo og úti í náttúrunni, og getur haft margháttuð heilsuspillandi áhrif. Meðal annars er vitað að efnið getur valdið fóstursköðum hjá gæludýrum og þess vegna líklega einnig hjá mönnum. Þá er efnið talið hormónaraskandi  og jafnvel krabbameinsvaldandi, auk sem það liggur undir grun um að geta stuðlað að offitu, hækkuðu kólesteróli, ristilbólgu, ADHD og efnaskiptaskjúdómum, m.a. í skjaldkirtli. Notkun PFOA er ekki bönnuð, en Norðmenn hafa þó takmarkað notkun þess og innan Evrópusambandsins er rætt um að gera slíkt hið sama.

 

Annað efni sem oft er nefnt í þessu sambandi er PFOS (eða perflúoroktansúlfónat), en það er væntanlega að mestu horfið úr neytendavörum eftir að það var sett á lista Stokkhólmssamningsins yfir efni sem ber að takmarka notkun á. En jafnvel þótt PFOS verði alveg tekið úr umferð og PFOA líka, benda nýjustu vísbendingar til að önnur flúorsambönd sem byrjað er að nota í staðinn séu ef til vill lítið skárri.

 

Efnið PFTE (eða pólýtetraflúoretýlen) er ef til vill best þekkta dæmið um fjölflúoraðar kolefniskeðjur. Þetta er efnið sem við þekkjum best sem teflon. Teflon hefur reyndar þann kost frá heilsufarslegu sjónarmiði að vera samsett úr mjög löngum keðjum sem gerir efnið mjög hart og stöðugt. Við venjulegar aðstæður ætti það því ekki að sleppa svo glatt úr teflonhúðuðum vörum. Hins vegar eru styttri og léttari flúorsambönd á borð við PFOA hugsanlega notuð við framleiðsluna og við vitum svo sem ekkert um hvort eitthvað af þeim fylgi teflonhúðinni alla leið til okkar.

 

Í framhaldi af allri þessari pólý- og perflúorumræðu hafa meðal annars vaknað spurningar um það hvort ráðlegt sé að nota fjölnota bökunarpappír sem kom á markað fyrir nokkrum árum, m.a. undir vöruheitunum Tefal og Teflet. Þessum pappír, ef pappír skyldi kalla, hefur verið tekið fagnandi á mörgum heimilum, enda er hann auðveldur í notkun og endist eðlilega miklu oftar og lengur en venjulegur bökunarpappír. Framleiðendum þessa pappírs ber væntanlega engin skylda til að upplýsa neytendur um efnainnihald pappírsins. Alla vega er ekki minnst orði á innihaldið á þeim umbúðum sem ég komst yfir í undirbúningi þessa pistils. Af vöruheitunum má þó ráða að þarna sé einhvers konar teflon á ferðinni, hvort sem PFOA eða aðrar tiltölulega stuttar flúoraðar kolefniskeðjur koma þar við sögu. Mýkt vörunnar bendir þó til að þetta sé alla vega ekki bara grjóthart teflon.

 

Ég get ekki kveðið upp neinn dóm yfir fjölnota bökunarpappír á grundvelli þeirra upplýsinga sem liggja á borðinu mínu. Þegar rætt er um hugsanleg áhrif á heilsu manna þarf líka að hafa í huga að það eitt að eitthvert bráðskaðlegt efni sé til staðar í vörunni þýðir ekki endilega að varan sé skaðleg fyrir heilsuna. Til þess þarf efnið í fyrsta lagi að losna úr vörunni og í öðru lagi að berast inn í líkamann, annað hvort með mat eða á einhvern annan hátt. Hæpið er að fullyrða neitt um þetta án efnagreininga á blóði eða einhverju álíka. Og jafnvel þótt efnið finnist í blóði er ekki víst að það sé skaðlegt heilsunni. Til þess þarf væntanlega einhvern tiltekinn lágmarksstyrk. Í því sambandi er hins vegar hollt, í tvennum skilningi þess orðs, að hafa í huga að þegar yfirvöld setja viðmiðunarmörk um styrk einstakra efna, láist þeim gjarnan að taka með í reikninginn hugsanleg samverkandi áhrif með öðrum efnum, þ.e.a.s. svokölluð kokteiláhrif. Þess vegna geta viðmiðunarmörk verið óþarflega há í einhverjum tilvikum.

 

Að öllu þessu sögðu er niðurstaðan sú að fjölnota bökunarpappír geti barasta verið í góðu lagi, en að það geti alveg eins verið að hann sé það ekki. Á meðan engin sönnunargögn liggja fyrir um skaðleysið er því ástæða til að halda sig við varúðarregluna og nota frekar venjulegan bökunarpappír. En gæti hann þá ekki allt eins hafa verið meðhöndlaður með flúorsamböndum til að gera hann meira fráhrindandi? Almenna svarið við þessari spurningu er einfaldlega „jú“. Engin þeirra fjögurra tegunda af bökunarpappír sem fáanlegar voru í verlsunum í Borgarnesi í gær virðist þó hafa verið meðhöndluð með slíkum efnum. Samkvæmt upplýsingum á umbúðum höfðu allar fjórar hins vegar fengið sílikonmeðhöndlun, sem líka hefur þann tilgang að draga úr fitudrægni pappírsins. Slík meðhöndlun er ekkert endilega vandræðalaus heldur, því að sílikonsamböndin eru líka misholl. Ein af þessum fjórum tegundum skartaði norræna umhverfismerkinu Svaninum, sem þýðir m.a. að framleiðandinn hefur sýnt fram á að hann hafi hvorki notað flúorsambönd né tvö tiltekin sílikonsambönd sem ég hirði ekki um að nafngreina en eru ekki talin æskileg í framleiðslu af þessu tagi.

 

Meginniðurstaðan úr þessu öllu saman er því sú að öruggasti kosturinn sé að kaupa Svansmerktan bökunarpappír og það sama gildi þá um bollakökuform og aðrar matarumbúðir af þessu tagi. Svanurinn og önnur sambærileg umhverfismerki eru einföldustu skilaboðin sem völ er á í þessum innkaupum, enda eru tiltölulega fáir neytendur með nógu margar háskólagráður í efnafræði til að geta vegið og metið innihaldslýsingar, séu þær á annað borð til staðar.

 

leifurh's picture
Leifur Hauksson
dagskrárgerðarmaður