Hverju hefur rannsóknin skilað?
Síðan rannsóknin hófst hafa 33 verið ákærð. Þar af eru fjórir sem tengjast Bandaríkjaforseta. Þá hafa einn Hollendingur, 25 Rússar og þrjú rússnesk fyrirtæki verið ákærð. Við skulum líta aðeins betur á tvo þeirra sem tengjast forsetanum.
Byrjum á Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Tumps og lykilmanni í kosningateymi hans. Hann var ákærður fyrir að hafa vísvitandi sagt FBI ósatt um samskipti sín við Rússa. Hann játaði það og sagðist ætla að vera samvinnuþýður við rannsókn Muellers. Þá er það Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri forsetans. Í október í fyrra var hann ákærður fyrir samsæri gegn Bandaríkjunum og fyrir að hafa unnið gegn réttvísinni. Hann játaði sekt í báðum ákærum. Í febrúar á þessu ári var hann svo ákærður fyrir 18 atriði, játaði sekt í átta þeirra og 10 voru látin falla niður. Manafort hefur samþykkt að vera vitni Muellers, en hann er talinn búa yfir upplýsingum um hversu mikið meint samstarf við Rússa var.
Hvað gerist næst?
Sumir fréttaskýrendur telja mögulegt að Trump ætli að losa sig við Mueller. Aðrir telja það ólíklegt, það komi sér illa fyrir hvern sem er að reka mann sem er að rannsaka meint brot hans. Nancy Pelosi, þingflokksformaður Demókrata, sagði á Twitter að brottrekstur Jeffs Sessions úr embætti dómsmálaráðherra væri augljós tilraun til að hindra rannsóknina. Þeir höfðu eldað grátt silfur síðan Sessions sagði sig frá rannsókninni.
Í þingkosningunum 6. nóvember tryggðu Demókratar sér meirihluta í fulltrúadeild þingsins. Þeir hafa lýst því yfir að þeir ætli að tryggja að rannsókninni verði haldið áfram. Í viðtali við Lesley Stahl í fréttaskýringaþættinum Sextíu mínútum fyrr í þessum mánuði, var Trump spurður hvort hann gæti heitið því að binda ekki enda á rannsókns Muellers.
Trump sagðist ekki vilja heita neinu en honum fyndist rannsóknin mjög ósanngjörn og ekki hafi verið neitt samráð milli hans og Rússa. Á þriðjudag skilaði forsetinn skriflegum svörum til Muellers og sagðist hafa farið létt með það. Politico greindi frá því í vikunni að Mueller vildi þó enn ná tali af forsetanum, sem hefur ekki viljað ræða við hann. Mueller gæti því þurft að stefna Trump til þess að tala við hann og gæti rannsóknin því vel dregist enn meira á langinn. Mueller hefur sjálfur ekkert gefið upp á þeim átján mánuðum sem eru frá því hann hóf rannsóknina en bandarískir fjölmiðlar telja að von sé á lokaskýrslu frá saksóknaranum á næstunni.