Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Um hvað snýst rannsókn Roberts Mueller?

22.11.2018 - 17:20
Robert Mueller og Donald Trump. - Mynd:  / 
Í næstum tvö ár hefur reglulega verið minnst á hina svokölluðu Rússarannsókn Roberts Mueller í fréttum. En um hvað snýst þessi rannsókn og hvað hefur gerst?

Robert Mueller er lögfræðingur, Repúblikani og fyrrverandi forstjóri FBI til 12 ára. Í maí 2017 skipaði dómsmálaráðuneytið hann í embætti saksóknara til að fara fyrir nefnd sem rannsakar möguleg afskipti Rússa af forsetakosningunum árið 2016. En um hvað snýst rannsóknin? 

Í grunninn snýst hún um þrjár meginspurningar. Í fyrsta lagi, höfðu Rússar afskipti af forsetakosningunum í Bandaríkjunum 2016? Í öðru lagi, átti framboð Donalds Trump hlut að máli? Og í þriðja lagi, hefur forsetinn reynt að hylma yfir það? Nokkrar bandarískar leyniþjónustur komust að þeirri niðurstöðu að Rússar hafi haft bein áhrif á kosningarnar í þágu Repúblikanaflokksins og frambjóðanda hans. Það hafi verið gert með vel ígrunduðum netherferðum og -árásum ásamt því að fjölda falsfrétta var dreift með skipulögðum hætti á samfélagsmiðlum, allt í umboði yfirvalda í Rússlandi.

epa06016911 Former FBI Director James Comey delivers his much-anticipated testimony before the Senate Intelligence Committee on the FBI's investigation into the Trump administration, and its possible collusion with Russia during the campaign, in the
 Mynd: EPA
Michael Comey, fyrrverandi forstjóri FBI.

Bandaríska alríkislögreglan FBI rannsakaði þessi meintu tengsl við Rússa í aðdraganda forsetakosninganna. James Comey fór fyrir þeirri rannsókn sem forstjóri stofnunarinnar. Trump sætti mikilli gagnrýni fyrir að segja honum upp í maí í fyrra. Opinbera skýringin á brottrekstri Comey er að honum hafi ekki verið treystandi og hann hafi ekki staðið sig nógu vel í starfi. Ekki eru allir sammála um það, sérstaklega meðal Demókrata. Hefur þessu verið líkt við það þegar Richard Nixon ákvað á sínum tíma að reka yfirmann sjálfstæðrar rannsóknarnefndar sem átti að rannsaka Watergate-málið.

Hvað segja Trump og Pútín?

Vladimír Pútín Rússlandsforseti neitar því alfarið að ríkisstjórn hans hafi skipt sér af kosningunum, honum finnst það í raun fjarstæðukennt. „Getur einhver, í alvöru talað, trúað því að Rússland, land í mörg þúsund mílna fjarlægð, með aðstoð tveggja eða þriggja Rússa - sem ég sjálfur þekki ekki einu sinni - að þeir geti haft afskipti af kosningunum og áhrif á úrslit þeirra?“ spurði Pútín fréttamann NBC þegar hann var í viðtali þar fyrr á þessu ári. 

Vitað er um minnst 12 , sem tengjast Trump, sem höfðu samskipti við Rússa í tengslum við forsetaframboð hans. Þar á meðal eru tengdasonur hans og ráðgjafi Jared Kushner og sonur hans Donald Trump yngri. Bent hefur verið á að samskipti við erlend ríki séu ekki óvanaleg í kringum forsetaframboð en tveir hafa játað að hafa logið til um samskipti við Rússa. Trump hefur staðfastlega neitað því að hann eða framboð hans tengist þessu á nokkurn hátt, engin sönnunargögn séu þess efnis. Hann segir rannsóknina tilbúning og nornaveiðar, sem komi sér afar illa fyrir Bandaríkin.

epa06321985 Russian President Vladimir Putin (R) and US President Donald J. Trump (L) talk at the break of a leader's meeting at the 25th Asia-Pacific Economic Cooperation (APEC) summit in Da Nang, Vietnam, 11 November 2017. The APEC summit brings
 Mynd: EPA-EFE - Sputnik Pool
Trump og Pútín eru báðir óánægðir með Mueller.

Hverju hefur rannsóknin skilað?

Síðan rannsóknin hófst hafa 33 verið ákærð. Þar af eru fjórir sem tengjast Bandaríkjaforseta. Þá hafa einn Hollendingur, 25 Rússar og þrjú rússnesk fyrirtæki verið ákærð. Við skulum líta aðeins betur á tvo þeirra sem tengjast forsetanum. 

Byrjum á Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Tumps og lykilmanni í kosningateymi hans. Hann var ákærður fyrir að hafa vísvitandi sagt FBI ósatt um samskipti sín við Rússa. Hann játaði það og sagðist ætla að vera samvinnuþýður við rannsókn Muellers. Þá er það Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri forsetans. Í október í fyrra var hann ákærður fyrir samsæri gegn Bandaríkjunum og fyrir að hafa unnið gegn réttvísinni. Hann játaði sekt í báðum ákærum. Í febrúar á þessu ári var hann svo ákærður fyrir 18 atriði, játaði sekt í átta þeirra og 10 voru látin falla niður. Manafort hefur samþykkt að vera vitni Muellers, en hann er talinn búa yfir upplýsingum um hversu mikið meint samstarf við Rússa var. 

Hvað gerist næst?

Sumir fréttaskýrendur telja mögulegt að Trump ætli að losa sig við Mueller. Aðrir telja það ólíklegt, það komi sér illa fyrir hvern sem er að reka mann sem er að rannsaka meint brot hans. Nancy Pelosi, þingflokksformaður Demókrata, sagði á Twitter að brottrekstur Jeffs Sessions úr embætti dómsmálaráðherra væri augljós tilraun til að hindra rannsóknina. Þeir höfðu eldað grátt silfur síðan Sessions sagði sig frá rannsókninni.

Í þingkosningunum 6. nóvember tryggðu Demókratar sér meirihluta í fulltrúadeild þingsins. Þeir hafa lýst því yfir að þeir ætli að tryggja að rannsókninni verði haldið áfram. Í viðtali við Lesley Stahl í fréttaskýringaþættinum Sextíu mínútum fyrr í þessum mánuði, var Trump spurður hvort hann gæti heitið því að binda ekki enda á rannsókns Muellers. 

Trump sagðist ekki vilja heita neinu en honum fyndist rannsóknin mjög ósanngjörn og ekki hafi verið neitt samráð milli hans og Rússa. Á þriðjudag skilaði forsetinn skriflegum svörum til Muellers og sagðist hafa farið létt með það. Politico greindi frá því í vikunni að Mueller vildi þó enn ná tali af forsetanum, sem hefur ekki viljað ræða við hann. Mueller gæti því þurft að stefna Trump til þess að tala við hann og gæti rannsóknin því vel dregist enn meira á langinn. Mueller hefur sjálfur ekkert gefið upp á þeim átján mánuðum sem eru frá því hann hóf rannsóknina en bandarískir fjölmiðlar telja að von sé á lokaskýrslu frá saksóknaranum á næstunni.

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV