Um fagurfræði kappleikjalýsinga

Mynd: ABEDIN TAHERKENAREH / EPA

Um fagurfræði kappleikjalýsinga

11.11.2017 - 12:35
Hægt er að túlka íþróttir og miðla þeim áfram á ótal vegu og þótt það hljómi kannski undarlega, þá skiptir slík túlkun öllu máli. Því þótt þú vitir mætavel að Aníta Hinriksdóttir sé góður hlaupari, þá viltu að Sigurbjörn Árni Arngrímsson segi þér það. Segi þér það oft og með tilþrifum. Hann mætti þess vegna færa í stílinn og beinlínis ljúga að þér. Það er vegna þess, að þú ert tilbúinn fyrir dramatíkina. Þú ert tilbúinn að láta póesíu íþróttanna dáleiða þig. 

Í fjórða þætti Markmannshanskanna hans Alberts Camus skoðar Guðmundur Björn Þorbjörnsson samband fagurfræði og íþrótta. Hér er þó ekki verið að vísa í fagran líkamsburð íþróttamanna eða neitt þvíumlíkt, heldur fagurfræði frásagnarinnar, kappleikjaslýsinganna og sjálfrar umfjöllunarinnar um leikinn. Að baki hverri góðri sögu býr góður sögumaður, milliliðurinn ómissandi sem miðlar því sem þú skilur ekki, nú eða bara kennir þér eitthvað nýtt og færir þér nýja sýn á leikinn og jafnvel heiminn í leiðinni.

Fótbolti er eins og grískt leikhús

„Einfaldast er að segja að þetta sé leikhús í rauninni, harmleikhús. Þetta er líka svo afmarkað. 90 mínútur, eitt svið sem minnir á grískt leikhús. Þetta er eitthvað fornt.”

Sigurbjörg Þrastardóttir, rithöfundur, hefur bæði leynt og ljóst stúderað fagurfræðina að baki íþróttum og miðlað henni í sínu starfi, meðal annars í pistlum bæði í Morgunblaðinu og hér á Rás 1.

„Það er einfaldar reglur. Það er góður og vondur, þú heldur með öðrum og ert mjög á móti hinum. Svo sýnirðu allar tilfinningar mjög viðstöðulaust. Þetta er ekki endilega list hins mikla hugsuðar,  þú ert ekki lengi að melta hvað er þarna á ferðinni. Svo er þetta svo margt fleira, þetta er myndlist, þetta er ballet. Það er svo margt í hinu sjónræna sem hægt er að bera við list mannslíkamans; hið fullkomna form.”

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurbjörg Þrastardóttir - RÚV
„Ástæðan fyrir því að okkur finnst þetta svona skemmtilegt, og leyfum okkur að finnast þetta svona skemmtilegt, er kannski feginleikinn yfir því að þurfa ekki að standa í alvöru stríði," segir rithöfundurinn Sigurbjörg Þrastardóttir.

Sýnt í beinni frá atrennulausum stökkum

Og öllum þessum ósköpum, þessari mýkt og dýpt, svita og djöfulgangi, þarf einhvern veginn að miðla til okkar, fólksins á mölinni. Og til þess eru ýmsar leiðir.

„Þeir atburðir sem rötuðu í beina útsendingu í sjónvarpi voru þeir atburðir sem féllu sérstaklega vel að beinum sjónvarpslýsingum. Mín kynslóð man eftir því þegar það var sýnt frá Íslandsmótin í atrennulausum stökkum og kraftlyfingamótum, því þau hentuðu tæknilega séð vel til útsendinga,” segir sagnfræðingurinn Stefán Pálsson. Faír hafa líklega pælt jafn mikið í íþróttum hér á landi, og þá sér í lagi fótbolta, frá öðru sjónarhorni en gengur og gerist eins og hann. Stefán var til að mynda á sínum tíma með vikulega pistla í DV, sem fjölluðu um óvenjuleg jaðarefni eins og kvennaknattspyrnu í Mongólíu eða á Grænhöfðaeyjum. Þá er Stefán virkur meðlimur í hópnum Mjög óáhugaverðar fótboltaupplýsingar, á Facebook.

„Sjónvarpsútsendingar frá knattspyrnuleikjum voru það fágætar að það safnaðist ekki reynsla og hefðir. Það var þá helst Bjarni Fel sem spilaði vikugamla fótboltaleiki frá Englandi og lýsti þeim. Hann var svo dásamlega vel undirbúinn að grunlausir áhorfendur áttu ekki orð yfir því hvað Bjarni væru nú naskir á að sjá hvenær færi að draga til tíðinda eða hvaða einstaklingur væri líklegastur til að skora.”

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Björn Þorbjörnsson - RÚV
Sagnfræðingurinn Stefán Pálsson segir að á tíunda áratugnum hafi fótbolti orðið samfélagslega viðurkennt umfjöllunarefni fyrir bresku millistéttina.

Það er beiskur kaleikur að átta sig á því að trúin flytur ekki fjöll 

Í þættinum er rætt um hvaða máli hvers kyns íþróttaumfjöllun skiptir. Sækjum við í hana okkur til gagns og upplýsingar, eða sækjum við í hana vegna að við viljum líka lesa íþróttir á sömu forsendum og við lesum skáldskap? Viljum við finna einhver hughrif sem okkur hefði sjálfum ekki dottið í hug?

Chris Jones, blaðamaður ESPN, skrifaði grein að loknu Evrópuævintýri íslenska landsliðsins í fyrrasumar. Jones fór langt, langt yfir strikið - en þeir sem elska dramatíkina í íþróttum, eru jafnvel þeirrar skoðunar að penninn geti verið máttugri en boltinn? Hluti greinarinnar birtist hér í þýðingu Atla Freys Steinþórssonar, sem les hana upp í þættinum:

Þeir [leikmenn íslenska landsliðsins] voru þess fullvissir að lögmál hlutveruleikans ættu ekki lengur við um þá. Það er ávallt beiskur kaleikur að átta sig á því að trúin flytur ekki fjöll, þótt menn komi frá landi sem nærist á einmitt þeirri hugmynd. Alheimurinn hefur, því miður, lag á að núa þér því um nasir að þú sért í ekki nema 23 manna liði 330.000 manna þjóðar, sem tókst á við bestu kappa hins gamla Frakklands.

epa05406452 Aron Gunnarsson of Iceland reacts at the end of the UEFA EURO 2016 quarter final match between France and Iceland at Stade de France in Saint-Denis, France, 03 July 2016. Iceland lost the match 2-5.
 Mynd: ETIENNE LAURENT - EPA
Einn daginn mun gráhærður Aron Einar líta til baka á myndina af sér, brotnum og niðurlútum í París, og sannleikurinn um ævintýrið í París mun hvíla í honum.

Og jafnvel þótt Íslendingar klífi aldrei aftur hærri tinda en þeir hafa þegar gert, og jafnvel þótt þetta íslenska lið hafi fyrir hendingu eina hitt á náðarstund og leyfst fyrir fyndni forlaganna að heyra kraftbirtingarhljóm guðdómsins, þótt aðeins hafi verið afmarkaða stund, þá mun dýrðarljóminn lýsa þeim um ókomin ár. Einn daginn verða þeir gamlir menn, og þeir munu snúa heim í faðm fósturjarðar sinnar, og þeir munu segja sögur um vikurnar þegar gjörvallt mannkyn hossaði þeim og dillaði. Barnabörn þeirra munu trúa þeim tröllasögum ekki nema mátulega, en þessir öldungar, gráir fyrir hærum, munu horfa á myndir af sjálfum sér þar sem þeir stóðu í dýrðarljóma æsku sinnar í rigningunni í París, og sannleikurinn mun hvíla í þeim.

Ef þú ætlar að horfa á mynd sem heitir Armageddon, viltu að Jerry Bruckheimer geri hana. Ef Katla gýs viltu að Broddi Broddason segi þér það. Ef þú þarft að lesa bók sem segir þér frá því hversu harmþrungið það er að vera manneskja en um leið óendanlega fagurt er eins gott að Jón Kalman haldi á pennanum. Það er staður og stund fyrir allt og það er ekki sama hvernig hlutirnir eru gerðir, eða hver gerir þá. Og ef einhver ætlar að garga úr sér lungun af geðshræringu yfir fótboltaleik í Frakklandi. Já, þú giskaðir rétt. Gummi Ben.

Markmannshanskarnir hans Alberts Camus eru á dagskrá á laugardögum á Rás 1 í vetur. Í þáttunum er fjallað um aðrar og óþekktari hliðar íþróttanna. Tæknimaður er Hrafnkell Sigurðsson. Lesarar í þættinum eru Vera Illugadóttir og Atli Freyr Steinþórsson. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Ég varð að leyfa efnilega Pavel að deyja"

Trúarbrögð

Stalst í kirkju fyrir leikinn gegn Króötum

Trúarbrögð

„Hvað ef íþróttamaður héldi að hann væri Guð?“