Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Um 30 þúsund styðja kröfu Kára

24.01.2016 - 08:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tæplega 30 þúsund manns hafa á tveimur sólarhringum skrifað undir áskorun Kára Stefánssonar á vefnum endurreisn.is. Með undirskriftinni krefst fólk þess að íslenska ríkið verji 11% af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismála í stað 8,7% líkt og nú.

Í samtali við MBL í gærkvöldi sagði Kári undirskriftirnar vera orðnar 27 þúsund talsins en hann hefur gagnrýnt stjórnvöld harðlega og segir þau hafa vannært heilbrigðiskerfið í aldarfjórðung. 

Samkvæmt athugunum Rúnars Vilhjálmssonar prófessors í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands er Ísland í 23. sæti innan OECD þegar tekið er mið af útgjöldum sem hlutfalli af landsframleiðslu. Ísland var í upphafi aldar á meðal efstu þjóða eða í 6.sæti. Í Svíþjóð er hlutfallið 11% og 10,4 prósent í Danmörku. 

Samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands frá því í fyrra er mikill stuðningur við að stjórnvöld verji meiri fjármunum til heilbrigðismála. Er það afstaða yfir 90% fullorðinna Íslendinga.

Þá hefur einnig mælst yfirgnæfandi stuðningur við svokallað félagslegt heilbrigðiskerfi líkt og rekið er hér á landi og á Norðurlöndunum, þar sem hið opinbera fjármagnar að langmestu leyti heilbrigðisþjónustuna og á og rekur helstu rekstrareiningar, svo sem sjúkrahús og heilsugæslustöðvar.