Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Um 2.700 manns gera kröfu um íbúakosningu

13.02.2019 - 11:53
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samtök andstæðinga stóriðju í Helguvík afhentu í gær Friðjóni Einarssyni, forseta bæjarráðs í Reykjanesbæ, undirskriftarlista þar sem þess er krafist að íbúar fái að kjósa um það hvort kísilverksmiðja Stakksbergs, áður United Silicon, fái að hefja starfsemi á ný og um það hvort kísilverksmiðja Thorsil verði reist í bæjarfélaginu.

Samtökin söfnuðu rúmlega 2.700 undirskriftum sem er 20 prósent kosningabærra íbúa sveitarfélagsins. Í sveitarstjórnarlögum er kveðið á um að ef 20 prósent kosningabærra íbúa óski eftir atkvæðagreiðslu skulu bæjaryfirvöld verða við því innan árs. Friðjón segir að ef listinn reynist löglegur muni íbúakosningar fara fram. 

„Já, við höfum sagt það allan tímann, þessi meirihluti sem nú er við völd, að við munum leita ráða hjá íbúum varðandi þær breytingar á lóðinni sem þeir hafa til umráða. Það er ekki alveg tímabært eins og er þar sem við erum ekki komin með gögn frá fyrirtækinu. Þeir eru að vinna að skipulagsmálum og eru ekki búin að kynna þau fyrir okkur. Við munum örugglega leita ráða hjá íbúum þegar við fáum allt skipulagið til kynningar,“ segir Friðjón. „Þetta er mikill földi. Í kringum 20 prósent íbúa skrifuðu undir þennan lista. Samkvæmt lögum þá er okkur skylt að hafa íbúakosningu,“ segir hann.

Stakksberg telur hins vegar að íbúakosning um framtíð Helguvíkur sé ólögmæt og að ef starfsemi kísilverksmiðjunnar yrði hafnað í slíkri kosningu hafi Reykjanesbær bakað sér bótaskyldu. Félagið hafi öll leyfi fyrir starfseminni. Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafa leitað álits lögfræðinga og sveitarstjórnarráðuneytisins. Telur Friðjón að fullyrðingar Stakksbergs standist ekki.

„Þær snerust um hvort það væri löglegt að leita álits íbúa og hvernig staða íbúakosninga væri í þessu. Við erum fullviss að það sé ekkert sem mæli gegn því að sækja álit íbúanna. Það er alveg ljóst. Við eigum síðan eftir að útfæra þetta og ákveða hvað sé best að gera. Við höfum gert skoðanakannanir meðal íbúa reglulega varðandi kísilverið. Þar hefur ætíð komið í ljós að mikill fjöldi íbúa er á móti kísilversinu í Helguvík. Auðvitað hlustum við á íbúa. Við erum kjörnir af þeim og við munum hlusta á þá. Það er alveg ljóst,“ segir Friðjón. „Við höfum staðið við alla okkar samninga og ég sé ekki að það sé grundvöllur hjá þeim ef við leitum til íbúa með málefni sveitarfélagsins að þeir hafi einhvern möguleika á skaðabótaskyldu. Það er ekki nema að við værum að brjóta samninga sem við erum ekki að gera.“

Kjósi íbúarnir að hafna stóriðju - verður þá farið eftir þeirri niðurstöðu?
„Nú þurfum við að afmarka spurninguna vel og vanda okkur. Við erum ekki búin að festa niður hvað verður spurt um. Það snýst aðallega um það. Það er ekki tímabært að segja til um hvernig sú spurning verður. Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar er búinn að senda áskorun til eigenda Stakksbergs um að hætta við þessar fyrirætlanir. Það er nokkuð ljóst hvar meirihluti bæjarstjórnar stendur í þessu máli.“

Einar Már Atlason, formaður samtaka andstæðinga stóriðju í Helguvík, segir að umfram þessar 2.700 undirskriftir hafi safnast 400 undirskriftir frá fólki úr öðrum bæjarfélögum. „Undirskriftir komu alls staðar frá landinu en einnig frá sveitarfélögunum í kring eins og Garði, Sandgerði og Vogunum. Fólk var almennt mjög ósátt með að fá ekki að taka þátt í þessum undirskriftarlista. Fólk telur að mengunin eigi eftir að koma yfir þau bæjarfélög líka,“ segir Einar.

Hvað varðar spurninguna sem íbúar verða spurðir í kosningunni segir Einar að samtökin hafi einhverja hugmynd um hvernig hún eigi að vera en það þurfi þó að ræða betur. „Það er spurning hvort bærinn leyfi okkur að hafa puttana í því hvernig þetta verður orðað. Það þarf að vanda til verka hvernig spurt verður svo fólk geri sér grein fyrir hverju það er að svara. Við munum væntanlega senda eitthvað frá okkur hvernig við myndum óska þess að bærinn myndi spyrja okkur íbúana um þetta mál.“