
Mörg þúsund Úkraínumenn komu saman fyrir utan dómkirkju heilagrar Soffíu í morgun og báðu stíft fyrir því að þingið innan veggja kirkjunnar bæri árangur.
Þar komu saman helstu klerkar tveggja úkraínskra réttrúnaðarkirkjudeildanna og á dagskrá fundarins var að sameina þær í eina stærri kirkju — nokkuð sem varð úr.
Málið hefur vakið mikla athygli því úkraínska rétttrúnaðarkirkjan hefur undanfarnar þrjár aldir verið undir rússnesku kirkjunni, sem er langstærsta deild austurkirkjunnar.
En eftir að kastaðist í kekki milli Rússa og Úkraínumanna eftir að Rússar lögðu undir sig Krímskagann hafa margir kirkjunnar menn í Úkraínu barist fyrir því að kljúfa sig frá Rússum.
Nú í október veitti Bartólómeus patríarki í Konstantínópel, sem er „fremstur meðal jafningja“, eða æðsti maður rétttrúnaðarkirkjunnar á heimsvísu, Úkraínumönnum leyfi til að kljúfa sig frá rússnesku kirkjunni, og stofna nýja, sameinaða úkraínska kirkju sem yrði jafnrétthá þeirri rússnesku.
Í Úkraínu voru þrjár rétttrúnaðarkirkjudeildir. Ein fylgir Moskvu enn að málum en hinar tvær vilja rjúfa tengslin — þær tvær ætla nú að sameinast til þess að hljóta svo blessun patríarkans í Konstantínópel sem sjálfstæð kirkja.
Úrskurður Bartólómeusar vakti gríðarmikla reiði í Moskvu og í kjölfarið rauf rússneski patríarkinn Kírill á öll tengsl kirkju sinnar við kollega sinn í Konstantínópel, nokkuð sem kallað hefur verið einhver alvarlegasti klofningur í sögu kristinnar kirkju frá 1054.
Meðal þeirra sem ávörpuðu almenning fyrir utan dómkirkjuna í morgun var Petro Porosjenkó Úkraínuforseti, sem hefur sett kirkjumálið á oddann í aðdraganda forsetakosninga næsta vor.
Gríðarleg öryggisgæsla var við kirkjuna þar sem úkraínska leyniþjónustan sagðist óttast að Rússar myndu reyna að hleypa fundi klerkanna í loft upp.