Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Tyrkir og Íranar sameinast gegn Kúrdum í Írak

07.03.2019 - 02:15
Deilur og stríð · Erlent · Asía · Bandaríkin · Írak · Íran · Kúrdar · sýrland · Tyrkland
Mynd með færslu
 Mynd:
Tyrkir og Íranar hyggja á umfangsmiklar, sameiginlegar hernaðaraðgerðir gegn vopnuðum sveitum Verkamannaflokks Kúrda, PKK, og írönskum systursamtökum hans. Tyrkneska ríkisfréttastofan Anadolu hefur þetta eftir Suleyman Soylu, innanríkisráðherra Tyrklands, en ekki kemur fram hvenær eða hvar þessar aðgerðir eiga að fara fram. Fréttastöðin Al Jazeera leitaði staðfestingar hjá írönskum stjórnvöldum en hafði ekki borist svar í kvöld.

50.000 fallin í stríði Tyrkja og PKK

Tyrkir hafa átt í blóðugu stríði við aðskilnaðarsinna í PKK árum og áratugum saman; stríði, sem kostað hefur hátt í 50.000 mannslíf. Stjórnin í Ankara skilgreinir samtökin sem hryðjuverkahreyfingu, en talsmenn PKK, sem stofnuð voru 1973, segja þetta pólitísk samtök sem berjist fyrir auknum réttindum og sjálfstjórn Kúrda. Systursamtök PKK í Íran, PJAK, berjast fyrir því sama innan landamæra Írans.

Með bækistöðvar í Írak

Helstu bækistöðvar beggja hreyfinga eru innan landamæra Íraks og eru leiddar að því líkur að hinar fyrirhuguðu hernaðaraðgerðir beinist gegn þeim. Tyrkir hafa ítrekað ráðist gegn Kúrdum á íröksku landi og Recep Tayyip Erdogan, Tyrklandsforseti, hefur áður lýst því yfir að sameiginlegar aðgerðir Tyrkja og Írana gegn hersveitum Kúrda í Írak séu vel hugsanlegar.Stjórnvöld í Bagdad hafa til þessa látið sér nægja að mótmæla árásum Tyrkja á skotmörk í Írak, en ekki er víst að viðbrögðin verði jafn hófstillt ef Íranar slást í lið með þeim. 

Hátt flækjustig

Í Sýrlandsstríðinu hafa þessi ríki hins vegar verið sitt hvoru megin víglínunnar. Íran er, ásamt Rússlandi, annað helsta bandalagsríki Assads Sýrlandsforseta, en Tyrkir hafa stutt við bakið á hinum ýmsu hreyfingum uppreisnarmanna. 

Það flækir svo málin enn frekar, að Bandaríkin eru enn með her í Írak og telja sig hafa þar ákveðnum skyldum að gegna. Stjórnvöld í Washington líta á Íran sem svarinn óvin, en Tyrkland er hins vegar bandalagsþjóð þeirra í Nató. Samband Bandaríkjamanna og Tyrkja hefur þó verið með verra móti að undanförnu, einkum vegna hótana hinna síðarnefndu um að ráðast gegn Varnarsveitum Kúrda í Sýrlandi, sem Bandaríkjamenn telja til samherja sinna í stríðinu gegn íslamska ríkinu 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir