50.000 fallin í stríði Tyrkja og PKK
Tyrkir hafa átt í blóðugu stríði við aðskilnaðarsinna í PKK árum og áratugum saman; stríði, sem kostað hefur hátt í 50.000 mannslíf. Stjórnin í Ankara skilgreinir samtökin sem hryðjuverkahreyfingu, en talsmenn PKK, sem stofnuð voru 1973, segja þetta pólitísk samtök sem berjist fyrir auknum réttindum og sjálfstjórn Kúrda. Systursamtök PKK í Íran, PJAK, berjast fyrir því sama innan landamæra Írans.
Með bækistöðvar í Írak
Helstu bækistöðvar beggja hreyfinga eru innan landamæra Íraks og eru leiddar að því líkur að hinar fyrirhuguðu hernaðaraðgerðir beinist gegn þeim. Tyrkir hafa ítrekað ráðist gegn Kúrdum á íröksku landi og Recep Tayyip Erdogan, Tyrklandsforseti, hefur áður lýst því yfir að sameiginlegar aðgerðir Tyrkja og Írana gegn hersveitum Kúrda í Írak séu vel hugsanlegar.Stjórnvöld í Bagdad hafa til þessa látið sér nægja að mótmæla árásum Tyrkja á skotmörk í Írak, en ekki er víst að viðbrögðin verði jafn hófstillt ef Íranar slást í lið með þeim.
Hátt flækjustig
Í Sýrlandsstríðinu hafa þessi ríki hins vegar verið sitt hvoru megin víglínunnar. Íran er, ásamt Rússlandi, annað helsta bandalagsríki Assads Sýrlandsforseta, en Tyrkir hafa stutt við bakið á hinum ýmsu hreyfingum uppreisnarmanna.
Það flækir svo málin enn frekar, að Bandaríkin eru enn með her í Írak og telja sig hafa þar ákveðnum skyldum að gegna. Stjórnvöld í Washington líta á Íran sem svarinn óvin, en Tyrkland er hins vegar bandalagsþjóð þeirra í Nató. Samband Bandaríkjamanna og Tyrkja hefur þó verið með verra móti að undanförnu, einkum vegna hótana hinna síðarnefndu um að ráðast gegn Varnarsveitum Kúrda í Sýrlandi, sem Bandaríkjamenn telja til samherja sinna í stríðinu gegn íslamska ríkinu