Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tyrki og Sáda greinir á um morðið á Khashoggi

16.11.2018 - 12:17
Erlent · Asía · Khasoggi
epa07066306 (FILE) - Saudi journalist and former editor-in-chief of the Saudi newspaper Al-Watan Jamal Khashoggi attends the the opening ceremony of 11th edition of Arab Media Forum 2012 in Dubai, United Arab Emirates, 08 May 2012 (Reissued 03 October
Jamal Khashoggi. Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfirvöld í Tyrklandi hafa sönnunargögn sem stangast á við fullyrðingar Sádi-Araba um morðið á sádiarabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi, þar á meðal aðra hljóðupptöku. Tyrkneska blaðið Hürriyet greinir frá þessu. 

Embætti ríkissaksóknara í Sádi-Arabíu staðfesti í gær að Khashoggi hefði verið drepinn á skrifstofu ræðismanns landsins í Istanbúl 2. október. Þar hefði komið til átaka, Khashoggi hefði verið gefinn banvænn lyfjaskammtur, lík hans bútað sundur og fjarlægt.

Fimm menn ættu yfir höfði sér dauðarefsingu yrðu þeir sakfelldir fyrir aðild að morðinu, en þeim væri gefið að sök að fyrirskipa morðið og taka beinan þátt í því. Alls hefðu ellefu verið ákærðir en 21 væri í haldi. 

Abdulkadir Selvi, dálkahöfundur hjá tyrkneska blaðinu Hürriyet, segir hins vegar að ýmislegt í frásögn Sádi-Araba komi ekki heim og saman við þau gögn sem Tyrkir hafi undir höndum.

Sjö mínútna hljóðupptaka sem tyrknesk yfirvöld greindu frá nokkru eftir morðið sannaði að Khashoggi hefði verið kyrktur.

Á seinni hljóðupptökunni, sem sé fimmtán mínútna löng, komi greinilega fram að Khashoggi hafi verið myrtur að yfirlögðu ráði.

Mennirnir fimmtán sem komið hefðu til Tyrklands í því skyni, hefðu rætt það í ræðismannsskrifstofunni hvernig fara skyldi að, skömmu áður en Khashoggi kom þangað hinn örlagaríka dag. Þá séu til upplýsingar um símtöl mannanna eftir ódæðisverkið.