Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Tvöföld refsing kærð til Mannréttindadómstóls

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skattsvikadómi Hæstaréttar frá 21. september verður áfrýjað til Mannréttindadómstóls Evrópu. Ragnar H. Hall verjandi segir að skjólstæðingur hans hafi verið dæmdur tvívegis í sama máli. Það samrýmist ekki nýlegum dómi Mannréttindadómstólsins. Hæstiréttur sveigi hjá meginatriði í dómi Mannréttindadómstólsins. Þá sæti furðu ef aðeins Jón Ásgeir Jóhannesson og Tryggvi Jónsson eigi að njóta verndar Mannréttindasáttmálans en ekki aðrir í sömu sporum. Hann á von á að margir kæri þangað í framhaldinu.

Hæstiréttur var fjölskipaður í máli mannsins því málinu þótti svipa til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu frá því í maí í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar. Dómstóllinn taldi að íslenska ríkið hefði brotið mannréttindi á Jóni Ásgeiri og Tryggva því ríkið hefði beitt refsikenndum viðurlögum í tvígang vegna sama brotis. 

Hæstiréttur staðfesti 21. september dóm héraðsdóms yfir manninum sem sakfelldi hann og lagði á hann 14 milljóna króna sektargreiðslu. Áður höfðu skattyfirvöld gert honum að greiða álag á vantalda skatta. Maðurinn hafði verið ákærður fyrir meiriháttar skattalagabrot. 

„Skjólstæðingur minn hefur tekið ákvörðun um að kæra þetta mál til Mannréttindadómstóls Evrópu.“
Af hverju?
Vegna þess að hann telur að sakfelling í málinu brjóti gegn ákvæðum Mannréttindasáttmálans um bann við tvöfaldri málsmeðferð og tvöfaldri refsingu.“
Nú hefur Hæstiréttur til hliðsjónar dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins og m.a. dóminn frá því í vor. Teljið þið þá að Hæstiréttur hafi ekki tekið tillit til dóms Mannréttindadómstólsins? 
„Við teljum að hann sveigi hjá hérna meginatriði í dómi Mannréttindadómstólsins.“ 

Segir Ragnar H. Hall verjandi mannsins. Þá segir hann að Mannréttindadómstóllinn þurfi líka að taka tillit til þess annmarka að dómararnir í málinu hafi allir á undanförnum árum dæmti í svipuðum málum og því hafi umbjóðandi hans haft fulla ástæðu til þess að draga óhlutdrægni dómarana í efa. Ragnar hafði krafist þess að dómararnir vikju sæti en á það hafði ekki fallist. 

Ragnar segir að dómur Hæstaréttar samrýmist engan veginn dómi Mannréttindadómstólsins í máli Jóns Ásgeirs og Tryggva: 
„Það er í rauninni alveg stórfurðulegt ef að það á að verða niðurstaðan úr þessum málum að þessir tveir einstaklingar einir eigi að njóta verndar samkvæmt þessum ákvæðum Mannréttindadómstólsins en ekki aðrir í sömu sporum.“
Er þá enn réttaróvissa uppi hér?
„Já, það tel ég vera.“ 

Sér sýnist Hæstiréttur vera að fara í ferðalag þar sem skoða þurfi hvert og eitt mál og bera saman við mál Jóns Ásgeirs og Tryggva:  
„Það sé búið að stilla þessu upp þannig að það sé mikill fjöldi mála á næstunni sem að muni fara í þann farveg að menn verði að leita réttar síns hjá Mannréttindadómstólnum.“