Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tvöfalt lengur í símanum en æskilegt er talið

11.04.2019 - 21:01
Mynd með færslu
 Mynd: Stock
Grunnskólanemendur sem fréttastofa tók tali í dag eru allt að átta klukkustundir á dag í símanum. Það er tvöfalt lengri tími en ný viðmið um skjátíma segja til um. Nemandi segir gott að hafa viðmið, annars sé auðvelt að skýla sér á bak við skjátíma skólasystkina sinna til að réttlæta hann.

Nemendur í unglingadeild grunnskóla mega mest vera þrjá tíma fyrir framan skjá á dag, samkvæmt leiðbeiningum um skjátíma. 

Hvað eruð þið mikið í símanum á dag? „Það gæti verið svona sjö til átta tímar á dag,“ segir Elisa Sumarin Khorchai, 7. bekk.

„Tvo klukkutíma til þrjá, í kringum það, “ segir Bríet Glóð Pálmadóttir, 10 bekk 

„Ég er held ég aðeins meira en meðal. Ég er mikið í leikjum og myndbönd og þannig. Ég er kannski aðeins of mikið. Ég er fjóra tíma á dag, kannski,“ segir Erik Gerritsen, 8 bekk.

Foreldrum vanti tæki til að ákvarða skjátíma

Foreldrafélög í Breiðholti standa fyrir átaki til að vekja fólk til umhugsunar um skjátíma barna. Ísskápasegli með leiðbeiningum um skjátíma verður til að mynda dreift á öll heimili barna á höfuðborgarsvæðinu. 

„Foreldra vantar tæki eða verkfæri til að takast á við þessi mál gagnvart börnunum sínum,“ segir Guðmundur Magnús Daðason formaður foreldrafélags Ölduselsskóla.

Á seglinum stendur að tveggja til fimm ára börn eigi ekki að vera meira en klukkutíma fyrir framan skjá á dag, nemendur í 1.-4. bekk mest einn og hálfan tíma, 5.-7. bekk mest tvo tíma, krakkar í áttunda til tíunda bekk mest þrjá tíma og þeir sem eldri eru ekki meira en fjóra tíma á dag. Segullinn er byggður á sambærilegum viðmiðum frá Akureyrarbæ. 

Guðmundur Magnús segir að sumum finnist þetta of rúm viðmið. „Í dag eru fagaðilar meira á því að setja ekki tímaviðmið fram í mínútum, af því á endanum er þetta einstaklingsbundið.“ En af hverju eruð þið þá að setja þetta niður í mínútur? „Það er eiginlega dálítið til að búa til umræðuna.“

„Það er fínt að hafa bara það sem allir gera bara. Það er svo einfalt að segja, þessi má það en ég má það ekki, skilurðu,“ segir Kjartan Helgi Guðmundsson, 9 bekk.

Kynnist samnemendum sínum upp á nýtt án síma

Ölduselsskóli í Breiðholti hefur frá mánaðamótum verið símalaus skóli. Nemendur sem fréttastofa tók tali voru sammála um að símabannið hefði verið erfiðast fyrstu dagana.

„Þetta er mjög mikil breyting fyrst að geta ekki alltaf flúið í símann og þurfa að spjalla svolítið meira en þetta venst alveg. Þá er maður að spila og spjalla og gera eitthvað í frímó í staðinn fyrir að sitja bara í símanum,“ segir Kjartan Helgi jafnframt.

„Það eru miklu meiri samskipti og allir að tala saman, maður er bara að kynnast öllum upp á nýtt. Þetta er bara mjög skemmtilegt,“ segir Erik.

„Þú svolítið svona, neyðist til að tala við skólafélagana ef þú vilt ekki sitja þarna í hljóði. Það er bara frábært,“ segir Bríet Glóð.

„Ég held að þetta hafi frekar áhrif á næsta ári þegar við erum í unglingadeildinni og erum í frímínútunum inni og svona en það er komið borðtennis og eitthvað þannig ég held að þetta verði bara allt í lagi,“ segir  Guðmundur Kristinn Davíðsson, 7 bekk.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV