
Fiskiðjan sameinaðist Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum fyrir rúmum tuttugu árum. Síðan hefur hluti Fiskiðjuhússins gengið kaupum og sölum. Nú hefur bærinn tekið tilboði Fosshótela um kaup á þremur af fjórum hæðum gömlu Fiskiðjunnar. Ráðgert er að nýta neðstu hæðina fyrir fiskasafn bæjarins.
Framkvæmdastjóri Fosshótela segir að unnið sé að fjármögnun. Það sé spennandi verkefni að tengja hótel á þessum stað við landslagið, sögu eyjanna og sjávarútveginn.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, segist finna fyrir miklum áhuga hjá einkaaðilum varðandi hótelrekstur og annars konar ferðaþjónustu í Eyjum, þrátt fyrir erfiðleika sem hafa verið við nýjar samgöngur um Landeyjahöfn. „Við og aðrir trúum því að samgöngurnar verði látnar virka,“ segir Elliði.
Tvö hótel eru í Eyjum. Annað þeirra hefur verið lokað eftir bruna í vetur. Vonir standa til að viðgerð þess ljúki í sumar.
Fréttastofa RÚV hefur áður sagt frá áformum um nýtt hótel við Hásteinsvöll. Í ljósi upplýsinga um veðurfar á svæðinu og mats á hættu á hugsanlegu grjóthruni hefur hönnun þess hótels verið breytt lítillega. Nú er gert ráð fyrir inngangi vestanmegin, grjótvörn í fjallshlíðinni og lengri vegalengd á milli hótelsins og fjallsins.