Þeir sem fara yfir landamæri Austur-Kongó eru mældir og skoðaðir. Mynd: ASSOCIATED PRESS - AP
Kona sem greinst hafði með ebólu í Úganda er látin. Tveir eru því látnir úr sjúkdómnum, sem talinn er hafa borist til landsins frá Austur-Kongó, en fimm ára drengur lést úr ebólu í Úganda í gær. Konan sem lést var amma hans.
Að sögn yfirvalda í Úganda höfðu þau bæði farið til Austur-Kongó til að vera við útför ættingja sem látist hafði úr sjúkdómnum. Þriggja ára drengur, bróðir þess sem lést og var einnig var með í för, er alvarlega veikur af ebólu.
Þau greindust öll við rannsókn við komuna til Úganda og voru þegar sett í einangrun. Ekki er vitað um fleiri ebólutilfelli í Úganda.
Mikill viðbúnaður hefur verið í ríkjum í kringum Austur-Kongó, en meira en 2.000 hafa veikst þar úr ebólu síðan sjúkdómurinn blossaði þar upp að nýju í ágúst í fyrra. Meira en tveir þriðju sem veikst hafa eru látnir.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur boðað til skyndifundar á morgun þar sem meta á stöðuna og hvort gefa eigi út alþjóðlega viðvörun vegna hættu á ebólu.