Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tvö forgangsútköll í Langanesbyggð

20.12.2019 - 00:10
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Slökkvilið Langanesbyggðar var tvisvar kallað út með stuttu millibili í Þórshöfn í dag. Rúmlega þrjú í dag barst tilkynning um eld á dvalarheimilinu Naust. Þar hafði kviknað í ljósastæðu, en búið var að slökkva eldinn þegar slökkvilið kom á vettvang. Skömmu eftir að slökkvilið var farið af vettvangi þar var það kallað aftur út vegna elds í veiðarfærageymslu í bænum.

Töluverður eldur var í eldhúsi geymslunnar að sögn Þórarins Þórissonar, slökkviliðsstjóra slökkviliðs Langanesbyggðar. Mikill hiti og reykur var inni í húsinu. Tveir reykkafarar voru sendir inn til að ná tökum á eldinum, og gekk slökkvistarf greiðlega að sögn Þórarins. Slökkvistarfi lauk um klukkan hálf sex í dag. Talsverðar skemmdir urðu á innanstokksmunum veiðarfærageymslunnar.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV