Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tvö félög fá þriðjung af auglýsingafé ríkisins

27.11.2018 - 06:45
Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Ráðuneyti, ríkisstofnanir og fyrirtæki á vegum hins opinbera borguðu tæpar 190 milljónir króna fyrir birtingu auglýsinga fyrstu tíu mánuði ársins. Þá er ekki talin með vinna við gerð og hönnun auglýsinganna. Tvö fjölmiðlafyrirtæki fengu samtals tæplega þriðjung auglýsingafjárins í sinn hlut. Þetta kemur fram við yfirferð reikninga ríkisins á vefnum Opnir reikningar.

Fréttablaðið og Morgunblaðið tróna yfir öðrum

Fyrstu tíu mánuði ársins hljóðar kostnaður vegna auglýsingabirtinga upp á 188 milljónir króna. Þar af rukkaði útgáfufélag Fréttablaðsins 37 milljónir króna og Árvakur, útgefandi Morgunblaðsins og mbl.is, 21 milljón króna. Samanlagt er það rétt tæplega þriðjungur allra auglýsingakaupa ráðuneyta, ríkisstofanana og ríkisfyrirtækja á tímabilinu.

Auglýsingastofan Pipar er í þriðja sæti yfir þau fyrirtæki sem fá mest greitt fyrir auglýsingabirtingar, með átján milljónir. Það er vegna birtingarþjónustu fyrirtækisins við ríkisstofnanir, einkum Háskóla Íslands. Pipar sér um auglýsingakaup fyrir viðskiptavini og greiðslurnar dreifast því áfram á önnur fyrirtæki.

Ríkisútvarpið fékk greiddar rúmar tólf milljónir og Sýn, sem á Stöð 2, ýmsar útvarpsstöðvar og vefinn Vísi, fékk fimm milljónir greiddar fyrir auglýsingabirtingar ríkisins.

Ríkið kaupir auglýsingar af sjálfu sér

Það eru ekki aðeins fjölmiðlar sem fá greitt fyrir auglýsingabirtingar. Til dæmis fær ríkið sjálft ellefu milljónir af því fé sem stofnanir ríkisins greiða fyrir auglýsingabirtingar. Það skýrist af útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðsins. Ákveðnar upplýsingar og auglýsingar verður lögum samkvæmt að birta í þessum blöðum og greiðir ríkið og viðkomandi stofnanir fyrir birtinguna. Alls námu greiðslur ríkisins fyrir birtingu auglýsinga í Stjórnartíðindum rúmlega tíu milljónum króna og tæpri milljón fyrir birtingar í Lögbirtingablaðinu.

Svo eru annars konar auglýsingamiðlar. Ríkið keypti birtingar fyrir tæpar fjórar milljónir af símaskrárvefnum Já og AFA JCDecaux fékk greiddar rúmar 1.400 þúsund krónur fyrir birtingu auglýsinga á skiltum fyrirtækisins.

Tvö fyrirtæki sem gefa út fjölmiðla á ensku fengu greitt fyrir birtingu auglýsinga hjá ríkinu. 1,3 milljónir voru greiddar fyrir birtingar í Reykjavík Grapevine og MD Reykjavík sem gefur út Iceland Review og What‘s On fékk 3,4 milljónir.

Frekar auglýst í dagskrám en fréttamiðlum

Á landsbyggðinni eru einna mest áberandi fyrirtæki sem gefa út dagskrárblöð. N4 og Ásprent Stíll fengu um tvær milljónir króna hvor vegna auglýsingabirtinga. Bæði fyrirtækin gefa út dagskrárblöð. N4 heldur einnig út samnefndri sjónvarpsstöð og Ásprent gefur út héraðsfréttablöðin Skarp og Vikudag.

Tekjur héraðsmiðla af auglýsingabirtingum ríkis og stofnana hins opinbera virðist almennt minni en dagskránna. Hið opinbera keypti auglýsingar fyrir tæpar 700 þúsund krónur í Skessuhorni, mest þeirra héraðsmiðla sem fréttastofa skoðaði. Fótspor sem gefur út fjölda héraðsfréttablaða og sjávarútvegsblað seldi ríkinu auglýsingapláss fyrir rúmar 400 þúsund krónur og Víkurfréttir fyrir 300 þúsund. Á Austurlandi keypti hið opinbera auglýsingapláss fyrir 600 þúsund hjá Héraðsprenti sem gefur út dagskrárblað og Útgáfufélag Austurlands sem heldur úti héraðsfréttablaðinu Austurglugganum og vefnum Austurfrétt fengu rúmar 170 þúsund krónur fyrir auglýsingabirtingar hins opinbera,

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV