Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Tvísýnt um úrslit í ESB kosningum í Bretlandi

07.06.2016 - 17:08
Mynd: EPA / EPA
Rúmar tvær vikur eru þangað til Bretar greiða atkvæði um hvort landið eigi að yfirgefa Evrópusambandið eða vera þar áfram. Skoðanakannanir benda til þess að mjög mjótt sé á mununum. Dagblaðið Financial Times birtir daglega stöðuna samkvæmt þeim könnunum sem birst hafa og setur fram vegna niðurstöðu.

 

Afar mjótt á mununum

Samkvæmt blaðinu eru þeir sem vilja vera ívið fleiri en þeir sem vilja að Bretar yfirgefi Evrópusambandið og munar tveimur prósentustigum. Það telst ekki marktækur munur. Kosningabaráttan hefur staðið meira og minna frá því David Cameron, forsætisráðherra Breta, tilkynnti snemma árs að þjóðaratkvæðagreiðslan yrði 23. júní. 

Allir nema UKIP með áframhaldandi veru

Allir helstu stjórnmálaflokkar Bretlands, að Sjálfstæðisflokknum UKIP undanskildum, vilja vera áfram, en í öllum flokkum er að finna úrsagnarsinna, ekki síst í Íhaldsflokksflokki Camerons. Þar hafa nokkrir áberandi stjórnmálamenn í forystusveitinni barist fyrir úrsögn með þá Boris Johnson, fyrrverandi borgarstjóra Lundúna, og Michael Gove dómsmálaráðherra í broddi fylkingar. Á hinn bóginn hafa flokkar allt frá Græningjum til Skoska þjóðarflokksins lýst stuðningi við áframhaldandi veru og berjast saman. 

Andstæðingar saman á fundum

Leiðtogar sem eru ósammála um landstjórnina koma fram saman til að hvetja Breta til að kjósa áframhaldandi Evrópusambandsaðild. Þannig töluðu á sama fundi David Cameron, Harriet Harman, þingmaður Verkamannaflokksins, Tim Farron, leiðtogi Frjálslyndra demókrata og Natalie Bennet, leiðtogi Græningja. Sú síðastnefnda sagði að áframhaldandi vera í ESB væri besti möguleikinn til að takast á við mestu ógn samtímans, loftslagsbreytingar. Harriet Harman sagði að úrsögn stefndi störfum í hættu.

Harma tapað fullveldi og kostnað við ESB veru

Úrsagnarsinnar leggja áherslu á að Bretar hafi afsalað sér fullveldinu og þeir vilji endurheimta það svo þeir geti ráðið eigin landamærum og ákveðið hverjir mega flytjast til Bretlands. Þeir segja að þær gríðarháu upphæðir sem nú fari til ESB eigi að nota heima fyrir til dæmis í heilbrigðisþjónstunni.

Kosningabaráttan vonbrigði

John Peet, stjórnmálaritstjóri hins virta tímarits The Economist, segir að kosningabaráttan hafi valdið vonbrigðum og báðir aðilar saki hinn um hræðsluáróður. Úrsagnarsinnar segi að það sé hræðsluáróður að efnahagssamdráttur og útgjöld fyrir skattborgara fylgdu úrsögn. Þeir hafi gagnrýnt fjármálaráðherra fyrir samdráttarspá og segi að allar efnahagsstofnanir, eins og Alþjóðagjaldreyrissjóðurinn sem spái efnahagslegum afturkipp, hafi rangt fyrir sér. Economist hefur hvatt Breta til að halda áfram að vera í ESB en John Peet segir að blaðið vandi sig í umfjöllun sinni, reyni að vera eins málefnalegt og mögulegt er. Sama gildi um nokkra aðra fjölmiðla. Peet bætti því við að eitt vandamál við að fjalla um mögulega úrsögn sé að enginn viti hvað þá gerist.

Mikill munur á afstöðu eftir aldri

Peet segir að allar skoðanakannanir bendi til þess að mikill munur sé á afstöðu kjósenda eftir aldri. Eldra fólk, sem margt hafi kosið áframhaldandi veru í því sem þá var Efnahagsbandalag Evrópu árið 1975, sé miklu líklegra til að kjósa úrsögn. Sumir telji að það sé vegna þess að eldra fólk hafi áhyggjur af innflytjendum eða að því finnist að það hafi verið blekkt því enginn hafi sagt að efnahagsbandalag yrði að pólitísku sambandi. Ungt fólk sé vant ferðalögum um Evrópu, óttist ekki fólksflutninga og sjái tækifæri í Evrópu.

Erfitt að spá fyrir um úrslit

John Peet segir að afar erfitt sé að spá fyrir um úrslitin, skoðanakannanir hafi ekki gefið rétta mynd fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu Skota um sjálfstæði né fyrir þingkosningarnar í Bretlandi í fyrra. Báðar fylkingarnar geri ráð fyrir að undir lok kosningabaráttunnar aukist fylgi þeirra sem kjósa áframhaldandi ESB aðild, hin varfærnu hugsi með sér: ,,Við vitum hvað við höfum en ekki hvað yrði". Hann segist því reikna með að fylgi þeirra sem vilja vera aukist lítillega. En svo mjótt sé á mununum að jafnvel sú breyting ráði ekki úrslitum.

 

 

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV