Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Tveir sakfelldir fyrir hatursorðræðu

14.12.2017 - 16:59
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv - rúv
Hæstiréttur sakfelldi í dag tvo menn fyrir hatursorðræðu vegna ummæla þeirra í athugasemdakerfum vefmiðla um samkynhneigð. Þriðji maðurinn var sýknaður, en þeir höfðu allir verið sýknaðir í Héraðsdómi.

 

Í dag féllu þrír dómar í Hæstarétti þar sem til umfjöllunar var hvort þrír menn hefðu gerst sekir um hatursorðræðu. Hæstiréttur fjallar sérstaklega um dómana í frétt á heimasíðu sinni. Í öllum málunum mátti rekja tilefni ummælanna til samþykktar bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar á ályktun sem laut að gerð samstarfssamnings við Samtökin ´78 um svokallaða hinseginfræðslu í grunnskólum sveitarfélagsins.

Carl Jóhann Lilliendahl var ákærður fyrir að hafa látið hatursfull ummæli falla í athugasemd við frétt á Vísi um ályktun bæjarstjórnarinnar. Sagði hann meðal annars „ógeðslegt að innræta í börn hvernig kynvillingar eðla sig í rúminu“. Hæstiréttur taldi ummælin alvarleg, gróflega meiðandi og fordómafull. Var hann sakfelldur og dæmdur til að greiða sekt að fjárhæð 100.000 krónur og sakarkostnað.

Sveinbjörn Styrmir Gunnarsson var ákærður fyrir að hafa látið hatursfull ummæli falla í athugasemd við frétt á dv.is um málið. Vísaði hann meðal annars til samkynhneigðar sem „kynvillu“. Orðin voru alvarleg, gróflega meiðandi og fordómafull að mati Hæstaréttar og var Sveinbjörn sakfelldur og dæmdur til að greiða 100.000 krónur í sekt og sakarkostnað.

Þriðji maðurinn, sem ekki er nafngreindur, var hins vegar sýknaður. Var hann ákærður fyrir ummæli sem hann lét falla á vefsíðunni Barnaskjóli. Sagði hann að kynfræðslu ætti ekki að veita í skólum og þá ætti aldrei að „réttlæta ónáttúrulega kynhegðun fyrir saklausum börnum“. Hæstiréttur taldi að ummælin mætti telja sem smánun í garð samkynhneigðra. Þau hafi þó ekki verið nægilega gróf til þess að flokka mætti sem hatursorðræðu. Niðurstaða héraðsdóms var því staðfest.

Einn hæstaréttardómari af þremur, Ólafur Börkur Þorvaldsson, skilaði séráliti í öllum málunum, en hann vildi staðfesta sýknudóma Héraðsdóms í þeim öllum. Ólafur féllst á að ummælin hefðu verið niðrandi, en þau hafi verið hluti af skoðanaskiptum í athugasemdakerfi „þar sem oft er vaðið á súðum og vart til þess fallin að að veita skoðun ákærða brautargengi“. Ummælin hafi frekar verið viðbrögð við ályktun bæjarstjórnar en viðleitni til að ógna, smána, rógbera eða hæðast að tilteknum hóp. Því hafi ekki verið ástæða til annars en að staðfesta dóma Héraðsdóms.

 

 

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV