
Tveir landsfundir um helgina
Flokksþing Framsóknarmanna hefst í dag í Reykjavík undir yfirskriftinni Framsókn til framtíðar en þetta er fyrsta flokksþing Framsóknarmanna frá hinu dramatíska flokksþingi í október 2016 þegar Sigurður Ingi Jóhannsson felldi Sigmund Davíð Gunnlaugsson þáverandi formann. Sigurður Ingi flytur stefnuræðu sína í fyrramálið og ráðherrar flokksins gefa flokksþingi yfirlit yfir sína málaflokka. Þinginu verður slitið síðdegis á sunnudag þegar stefnumál verða afgreidd en sveitarstjórnarkosningar í vor eiga eftir að setja svip sinn á þingið.
Þriggja daga landsþing Viðreisnar verður sett í Reykjanesbæ síðdegis. Heiti þingsins er Ruggum bátnum. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem verið hefur formaður flokksins síðan í október flytur stefnuræðu sína á morgun. Kosið verður í embætti eftir hádegi á sunnudag. Efnahagsmál, og uppeldis- og menntamál verða meðal annars til umræðu. Búast má við að sveitarstjórnarkosningarnar í vor beri á góma. Viðreisn hefur ekki birt framboðslista sinn í Reykjavík. Hann mun vera svo að segja tilbúinn og vera kann að hann verði birtur um helgina, samkvæmt upplýsingum fréttastofu.