Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tveir játa sök að hluta í gagnaversmáli

03.12.2018 - 11:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Aðalmeðferð hófst í morgun í gagnaversmálinu, vegna þjófnaðar á um 600 tölvum úr gagnaverum í Reykjanesbæ og Borgarnesi. Tveir sakborningar breyttu afstöðu sinni til ákæruefnisins og játuðu sök að hluta, með því að hafa farið inn í gagnaver sem voru rænd. Mikil spenna var í dómsal þegar verjendur ákærðu spurðu einn sakborninga og þurfti dómari að biðja verjendur að hafa sig hæga. Það væri ákærði sem svaraði og það mætti ekki leggja honum orð í munn.

Allir sjö sem eru ákærðir eru mættir til skýrslutöku. Fyrsti sakborningurinn sem gaf skýrslu sagði að hann hefði farið einn inn í gagnaver Advania í Keflavík eftir tólf á miðnætti nóttina sem þeir brutust inn. Hann hefði verið í úlpu merktri Öryggismiðstöðinni og borið tölvurnar út. Tveir aðrir hafi síðan hjálpað honum að hlaða tölvunum inn í bíl sem hann sjálfur keyrði út af svæðinu. Síðan þá hafi hann aldrei séð tölvurnar aftur og hefur ekki vitneskjum um hvert þær fóru.

Sakborningurinn sem fyrstur gaf skýrslur sagði að Sindri Þór Stefánsson hafi boðið honum að taka þátt í innbrotinu í gagnaverið en þurft að athuga hjá öðrum hvort hann gæti tekið þátt í því. Hann sagði jafnframt að annar maður hefði þrýst á um innbrotið og verið með inngangskóða inn á svæði. Maðurinn sagðist í skýrslutöku hafa leigt bílinn sem notaður var í innbrotið. Maðurinn sem þrýsti á innbrotið hafi beðið hann að fara til Keflavíkur og fylgjast með umferð á gagnaverssvæðinu, dagana fyrir innbrotið, sá maður væri þó ekki skipuleggjandi innbrotsins.

Sakborningurinn neitaði ítrekað að bendla aðra en þann mann við innbrotið eða tjá sig um hver hafi verið með honum. Verjandi hans spurði þá hvort hann óttist einhvern ef hann tjáir sig um þátt annarra í innbrotunum. Sakborningurinn sagði að svo væri, að hann óttaðist menn sem ekki væru í dómsalnum.

Maðurinn sagðist hafa tekið þátt í innbrotinu vegna þess að hann hafi verið illa staddur fjárhagslega. Honum hafi verið lofað „góðum pening“ fyrir að taka þátt í innbrotinu, eða um tveimur milljónum króna sem hann segist aldrei hafa fengið greiddar.