Tveir hætt komnir í sundi á tveimur vikum

10.02.2019 - 20:04
Mynd:  / 
Tveir karlmenn á þrítugsaldri hafa verið hætt komnir eftir köfun í sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu á síðustu tveimur vikum. Forstöðumaður Sundhallarinnar segir kafsund að aukast og að það geti verið stórhættulegt.

Í gær var karlmaður á þrítugsaldri hætt kominn í Sundhöll Reykjavíkur og hitt atvikið átti sér stað í Lágafellslaug í Mosfellsbæ fyrir tæpum tveimur vikum. Í bæði skipti voru það sundlaugargestir sem sáu mennina meðvitundarlausa í lauginni. Snör viðbrögð gesta, starfsfólks og viðbragðsaðila urðu til þess að ekki fór verr. Logi Sigurfinnsson, forstöðumaður Sundhallarinnar í Reykjavík, segir að svo virðist sem þolsund í kafi sé að færast í aukana, það sé stórhættulegt ef fólk kunni ekki til verka. 

Aldrei að fríkafa einn

Birgir Skúlason fríköfunarkennari segir að það sé regla númer eitt að fríkafa aldrei einn. „Þú ert alltaf með einhvern sem fylgist með þér.“ Hann segir jafnframt að aldrei megi ofanda fyrir köfun né nýta sér svokallaða Wim Hof aðferð, sem þjálfar öndun og kuldaþol. Maðurinn sem bjargaðist í Sundhöllinni í gær fór beint úr köldum potti í laugina að kafa. „Í dag er Wim Hof aðferðin mjög vinsæl á Íslandi og þú mátt aldrei nota þá aðferð og fríkafa líka, það er stórhættulegt,“ segir Birgir. 

Þá segir hann að oföndun fyrir köfun sé helsta ástæða slysa. Við oföndun fer magn koltvísýrings í blóði niður fyrir eðlileg mörk og á sama tíma bætist ekki við súrefni. Þá er hætt við að fólk missi meðvitund við það að halda niðri í sér andanum. „Þá getur þú verið að synda, ofandar og syndir, lendir svo bara í því að missa meðvitund án þess að vita af því. Engin merki koma frá líkamanum og þá ertu bara komin upp á það að einhver sé heppinn. Fylgst með þér eða sundlaugarverðirnir þurfa að taka þig upp.“

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi