Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tveir „Birnir“ við Íslandsstrendur

19.02.2015 - 12:47
Mynd með færslu
 Mynd:
Tvær langdrægar rússneskar sprengjuflugvélar af gerðinni Tupolev Tu-95 flugu inn í loftrýmiseftirlitssvæði NATO í nágrenni Íslands upp úr hádegi í gær. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni. Rússneskar herflugvélar hafa ekki flogið svo nærri landinu frá brotthvarfi bandaríska hersins

Vel fylgst með flugi Rússa

Sprengjuvélarnar flugu tvisvar framhjá landinu, í síðara skiptið mjög nálægt ströndum Íslands og voru þær í 26 sjómílna fjarlægð frá Stokksnesi þegar næst var. Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar segir að Landhelgisgæslan fylgist vel með flugi Rússa inn á loftvarnarsvæði Íslands.

Héldu í átt að Bretlandi

Fylgst var með vélunum í loftvarnaeftirlitskerfi NATO hér á landi sem vinnur úr gögnum frá ratsjárkerfi sem Landhelgisgæslan rekur og staðsett er í hverjum landsfjórðungi. Vélarnar komu inn í loftrýmiseftirlitssvæðið austur af Íslandi og héldu í suðurátt að Bretlandi og Írlandi. Þar voru þær auðkenndar af breskum orrustuþotum en stjórnstöð Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli hafði eftirlit með fluginu þann tíma sem vélarnar voru hér við land og tryggði flugöryggi í samvinnu við aðgerðastjórnstöð NATO í Uedem í Þýskalandi og flugleiðsögu Isavia.  

Fallon sendi hervélar á móti björnunum

Vélarnar, en vélar af þessari gerð eru jafnan kallaðar birnir, sneru við síðdegis, norður af Bretlandi og flugu sem leið lá aftur að Íslandi, með suðurströnd landsins og austur með því, beygðu upp með Austurlandi og flugu loks aftur norður í átt að Rússlandi. Micahel Fallon, varnarmálaráðherra Bretlands, greindi frá því í morgun að í gærvöldi hafi tvær rússneskar flugvélar komið upp að ströndum Bretlands. Breski flugherinn sendi Typhoon orrustuþotur til móts við þær. Leiða má líkum að því að  þar hafi birnirnir tveir verið á ferðinni.

Segir Rússa ógna NATÓ-ríkjum

Fyrr í mánuðinum flaug breski flugherinn á móti tveimur rússneskum sprengjuflugvélum sem flugu yfir Ermarsundi nærri Bournemouth. Fallon sagði að slíkt hefði ekki gerst frá því á dögum kalda stríðsins. Þá hefur umferð rússneskra herskipa og kafbáta aukist. Fallon lýsti því yfir í morgun að Atlantshafsbandalagsríkjum stafaði raunveruleg hætta af Rússum. Bandalagið yrði að vera viðbúið því að Rússar efndu til illinda við Eistland, Lettland og Litháen. 

Gætu þrýst á Eystrasaltsríkin

Hann sagði að framferði Rússa væri með þeim hætti að hann óttaðist að þeir ætluðu nú að þrýsta á Eystrasaltsríkin með því að reyna að espa rússneska minnihlutann í ríkjunum, beita tölvuárásum eða öðrum ráðum. Hann vísaði til þess að Rússar hefðu rænt eistneskum landamæraverði og ekki látið hann lausan enn. Þá sagði breski varnarmálaráðherrann að Atlantshafsbandalagið yrði að vera viðbúið hvers konar yfirgangi Rússa við Eystrasaltsríkin og bandalagsríkin væru nú að undirbúa viðbrögð.

Staðfesta gegn yfirgangi

David Cameron, forsætisráðherra Breta, hvatti Evrópuríki nýlega til staðfestu gegn yfirgangi Rússa, gera yrði þeim ljóst að slíkt framferði hefði í för með sér efnahagslegar refsiaðgerðir. Cameron vísaði til þess að aðskilnaðarsinnar í Úkraínu notuðu rússneska skriðdreka, rússnesk flugskeyti og rússneskar fallbyssur. Þetta væru ekki tæki sem fengjust á e-bay. Alistair Bunkall, sérfræðingur Sky-fréttastofunnar í varnarmálum, sagði í morgun að ummæli Michaels Fallon hefðu gengið enn lengra, hann hefði tekið dýpra í árinni, en nokkur annar breskur ráðherra, ráðamenn í Eystrasaltsríkjunum myndu fagna, en í Kreml myndu menn láta sér ummælin í léttu rúmi liggja.