Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Tveggja milljarða hækkun kolefnisgjalds

16.12.2017 - 18:43
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tekjur ríkissjóðs aukast um tvo milljarða á næsta ári með fimmtíu prósenta hækkun kolefnisgjalds. Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á Alþingi í dag. Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra boðar þverpólitískan samráðsvettvang í málefnum útlendinga. 

Fyrstu umræðu um fjárlög næsta árs lauk í gærkvöld og þingfundur hófst síðan fyrir hádegi í dag enda veitir ekki af að nýta tímann ef dagsetningarbundin mál eiga að vera afgreidd fyrir áramót. Fjármálaráðherra mælti fyrir hinum svokallaða bandormi við upphaf fundar. Í honum er kveðið á um hækkun ýmissa skatta og gjalda, hækkun frítekjumarks aldraðra og fimmtíu prósenta hækkun kolefnisgjalds.

„Meginmarkmið væntanlegrar aðgerðaráætlunar er að hvetja bæði heimili og fyrirtæki til að draga úr losun með orkuskiptum eða bættri orkunýtingu. Reiknað er með að þessi hækkun auki tekjur ríkissjóðs um tvo milljarða króna á árinu 2018,“ sagði Bjarni.

Dómsmálaráðherra mælti fyrir frumvarpi sínu um útlendinga sem snýst um dvalarleyfi vegna iðnnáms en það nám fór milli skips og bryggju við lagasetningu og er þetta ekki fyrsta leiðrétting laganna. „Þær koma til út af fréttum því að einstaklingar eru að lenda í vandræðum vegna villu í lögunum,“ sagði Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna.

„Ég fagna þessu frumvarpi hæstvirts dómsmálaráðherra enda er algerlega ótækt að iðnnám hafi fallið út með þessum klaufalega hætti úr lögum um útlendinga,“ sagði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.

Dómsmálaráðherra vakti athygli á því að samtök iðnaðarins hefðu ekki komið auga á þennan ágalla en boðaði samráð. „Þá mun ég boða til þverpólitísks samráðsvettvangs þeirra flokka sem hér sitja á þingi sem að falið verður að rýna áfram þennan mikla lagabálk.“

Þá mælti félagsmálaráðherra fyrir þremur frumvörpum sem öll tengjast málefnum fatlaðs fólks með miklar stuðningsþarfir og eru þau öll komin til umfjöllunar í velferðarnefnd. Mest mæðir þó þessa daga fram að áramótum á fjárlaganefnd sem nú fundar bókstaflega nótt sem nýtan dag. Nefndin sem að þessu sinni er skipuð átta körlum og einni konu hefur venjulega um þrjá mánuði til að fjalla um fjárlagafrumvarpið. Nú hefur hún aðeins örfáa daga.