Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Tveggja flokka stjórn líklegust

Mynd með færslu
 Mynd:
Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks er líklegasta niðurstaðan eftir alþingiskosningarnar í gær.

Framsóknarflokkurinn sem fékk 24,4 prósent atkvæða og vann stórsigur í kosningunum. Í síðustu kosningum fékk flokkurinn 14,8 prósent. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var að vonum glaður í nótt og sagðist hlakka til að koma markmiðum flokksins í framkvæmd. Hann segir ákall samfélagsins skýrt um að forgangsröðun framsóknarmanna í aðdraganda kosninganna eigi að ráða við stjórn landsins.

Sjálfstæðisflokkur fékk mest fylgi í kosningunum eða 26,7 prósent atkvæða og 19 þingmenn, eins og Framsókn. Sjálfstæðisflokkur bætir við sig þremur þingmönnum frá síðustu kosningum og þremur prósentustigum. Fylgi flokksins reyndist því heldur meira en skoðanakannanir sýndu að undanförnu en er langt undir hefðbundnu kjörfylgi og því sem flokkurinn mældist með fyrr á kjörtímabilinu. Bjarni Benediktsson formaður flokksins ávarpaði flokksmenn sína í nótt. Hann sagði flokkinn hafa séð það svart í kosningabaráttunni en með samstöðu hefði þeim tekist að snúa stöðunni sér í vil. 

Telja verður líklegt að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur reyni myndun nýrrar ríkisstjórnar. Bjarni Benediktsson sagði í nótt að tveggja flokka stjórn með ríflegan meirihluta finndist honum besta stjórnarformið. Sigmundur Davíð sagði almennt telja skilvirkara að stjórn sé ekki samsett úr mörgum flokkum, hann teldi þó þriggja flokka stjórn vel starfhæfa.