Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Tveggja ára bið eftir félagslegu húsnæði

25.08.2015 - 13:42
Hús í byggingu.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Meðalbiðtími fólks eftir félagslegu leiguhúsnæði á landsvísu er 25,6 mánuðir eða rúm tvö ár. Lengstur meðalbiðtími eftir leiguíbúð á síðasta ári var 30 mánuðir hjá Kópavogsbæ og Akraneskaupstað, 29 mánuðir hjá Reykjavíkurborg og 24 mánuðir hjá Hveragerðisbæ.

Þetta kemur fram í nýrri úttekt Varasjóðs húsnæðismála sem annast árlega könnun á stöðu félagslegs leiguhúsnæðis hjá sveitarfélögum landsins. Úttektin nær til ársins 2014. 

Flestir umsækjenda á höfuðborgarsvæðinu

Flestir umsækjenda um félagslegar leiguíbúðir eru í Reykjavík og Kraganum. Um 75% umsóknanna eru af þessu svæði. Umsóknum um félagslegt leiguhúsnæði á landsvísu fækkaði um 10% milli áranna 2013 og 2014 og fólki á biðlistum fækkaði um 6% á landsvísu. 

Sjö sveitarfélög áforma fjölgun íbúða

Sveitarfélögin í landinu áttu í lok síðasta árs 4.937 leiguíbúðir. Þetta eru 17 fleiri íbúðir en við lok árs 2013. Flestar leiguíbúðir á hverja hundrað íbúa eru á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra en fæstar eru í Kraganum og á Vesturlandi.

Sjö sveitarfélög áforma að fjölga leiguíbúðum í náinni framtíð, samtals um 131 íbúð. Mestu munar um áform Félagsbústaða í Reykjavík sem ætla að kaupa eða byggja samtals 100 íbúðir. Þrjú önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, Kópavogur, Garðabær og Mosfellsbær, ætla að fjölga íbúðum um samtals 21 íbúð. Fjögur sveitarfélög á landsbyggðinni ætla að fjölga íbúðum samtals um tíu. 

 

anna.kristin.palsdottir's picture
Anna Kristín Pálsdóttir
Fréttastofa RÚV