Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tvær stofur hanna svæðið í kringum Hlemm

08.05.2018 - 15:53
Mynd með færslu
 Mynd: DLD Dagný Land Design
Tvær stofur hafa verið valdar til að spreyta sig á endurgerð svæðisins í kringum Hlemm. Stefnt er að því að nýtt deiliskipulag fyrir svæðið verði tilbúið í haust. Matsnefnd taldi tillögur frá Mandaworks og DLD einkar góðar og falla vel saman.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að það sem aðra hugmyndina skorti bæti hin upp. Því var ákveðið að þær myndu í samstarfi hanna svæðið í kringum Hlemm úr frá forsendum deiliskipulags sem verður unnið á grunni tillagna hugmyndaleitarinnar.

Í umsögn matsnefndarinnar segir að tillaga Mandaworks fangi andann á Hlemmi og sé úthugsuð með tilliti til umferðarflæðis og styrki þá ása sem mikið eru nýttir í dag. Í tillögunni segir að Mathöllin slái tóninn og veiti innblástur. Lagt er til að að þar verði yfirbyggð athafnasvæði í bland við hönnuð svæði undir berum himni,svo að úrval samkomustaða verði í boði innan dyra sem utan. Nýja áætlunin gerir ráð fyrir fjölskrúðugu torgi með nýstárlegri starfsemi eins og íþróttum, reiðhjólaviðgerðum og matjurtagörðum. Þar verða yfirbyggð rými þannig að hitastigið á torginu verði notalegt, hvernig sem viðrar. Samkvæmt hugmyndinni verða hitaleiðslur undir gangstéttum sem verma yfirborðið og mynda mynstur þegar snjóar eða rignir.

Mynd með færslu
 Mynd: Mandaworld

Í umsögn matsnefndarinnar segir að það skorti hlýleika og gróður í hugmynd Mandaworks en að þar liggi styrkleiki tillögu DLD. Í kynningu á verkefni DLD segir að markmiðið með hönnuninni sé meðal annars að vinna með sögulega skírskotun svæðisins, styrkja mannlíf á torginu, skapa skjól og mismunandi notaleg dvalarsvæði. Þá er ætlunin að styrkja enn frekar við og efla matarmenningu við Hlemm og bæta aðbúnað þeirra sem nota almenningssamgöngur. Lögð verður áhersla á að gera þær að spennandi kosti með nútímaþægindum og tæknilausnum.

Hér má lesa nánar um hugmyndir Mandaworks og hér um hugmyndir DLD.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir