Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Tvær stærstu útgerðirnar með 18% kvótans

16.03.2017 - 12:16
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Tvö útgerðarfyrirtæki ráða yfir tæplega átján prósentum af öllum aflaheimildum í íslenska kvótakerfinu. HB Grandi og Samherji, sem hafa verið kvótahæstu fyrirtæki landsins undanfarin ár, tróna enn á toppnum.

Fiskistofa hefur birt nýjar upplýsingar um aflaheimildir stærstu útgerðarfyrirtækja landsins. Litlar breytingar hafa orðið á röð kvótahæstu fyrirtækjanna frá því sams konar upplýsingar voru birtar í október, þegar kvóta var úthlutað í upphafi fiskveiðiársins.

HB Grandi og Samherji eru eins og fyrr í tveimur efstu sætunum yfir kvótahæstu fyrirtæki landsins. HB Grandi er langhæst, með 11,32% af hlutdeildunum og hefur aukið hlut sinn lítillega - var með tæp 11% í upphafi fiskveiðiárs. Í öðru sæti er Samherji, með 6,52% af heildinni, og hefur hlutdeild þeirra sömuleiðis aukist aðeins. Samanlagt ráða þessi tvö útgerðarfyrirtæki því yfir nærri 18% af aflaheimildum í kvótakerfinu.

Síldarvinnslan í Neskaupstað er þriðja kvótahæsta fyrirtækið og Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum og Þorbjörn í Grindavík deila svo fjórða og fimmta sætinu.

Lista yfir 100 kvótastærstu útgerðafyrirtæki landins, og skiptingu á milli tegunda, má sá á vef Fiskistofu.

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV