Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Tvær Kringlur á fjórum árum

06.03.2017 - 15:30
Mynd: RUV / RUV
Byggingaráform íbúðafélagsins Bjargs sem Alþýðusambandið og BSRB stofnuðu í fyrra svara til þess að ráðist verði í byggingu tveggja verslunarmiðstöðva á stærð við Kringluna á næstu fjórum árum eða að byggt verði eitt fjölbýlishús á mánuði í fjögur ár.

Það má segja að með stofnun Bjargs sé verið að endurreisa verkamannabústaðakerfið sem rekið var um árabil af verkalýðshreyfingunni. Bjarg er  leiguíbúðafélaga sem býður upp á langtímaleigu og er ætlað tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði.  Nú liggur fyrir viljayfirlýsing af hálfu Hafnarfjarðar og Reykjavíkur um að reistar verði 1150 íbúðir. Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs, segir að stefnt sé að því að byggðir verði 90 þúsund fermetrar af íbúðarhúsnæði.

„Þá eru það um það bil tvær Kringlur. Þetta er fjárfesting upp á 35 milljarða króna. Þetta þýðir í raun að við erum að skila af okkur einu fjölbýlishúsi í hverjum mánuði í fjögur ár,“ segir Björn.

Björn segir á áhersla verði lög á að dreifa íbúðunum sem mest og ekki sé ætlunin að allt verði byggt á sama stað. Nýtt verði þéttingarreitir í borgarlandinu og einnig byggt í nýjum hverfum.  Þessar 1150 íbúðir eru hluti af þeim 2300 leiguíbúðum sem stjórnvöld lofuðu í tenglum við kjarasamninga að byggðar yrðu fyrir þá tekjuminni. Aðrar íbúðir koma t.d í hlut námsmanna, öryrkja og aldraðra. Í fyrra var samþykkt frumvarp félagsmálaráðherra um almennar íbúðir. Þar kemur fram að gert sé ráð fyrir að 30 % stofnframlag komi frá ríki og sveitarfélögum. Ríkið leggur til 18% og sveitarfélögin 12%, oftast í formi lóða og eða niðurfellingu gjalda. Í búðir til leigu í félaginu eru ætlaðar tekjuhópum í neðstu tveimur tekjufimmtungunum.

„Það eru efri mörk sem eru krónutala sem breytist á hverju ári. Hún miðast við fjölskyldur, einstaklinga og svo fyrir hvert barn. Lægri mörkin miðast við það að greiðslubyrði leigu fari ekki yfir 25 % af heildartekjum,“ segir Björn.

Það er gert ráð fyrir að þeir sem fá íbúðir í þessu kerfi geti búið þar um aldur og ævi. Til að fá íbúð þurfa leigutakar að vera með tekjur í lægri kantinum.  En hvað gerist ef tekjurnar hækka.? Ef í ljós kemur að leigutaki hefur í ákveðinn tíma  verið með hærri tekjur kemur til þess að leigan hækkar.

„Það sem gerist þá er að við nálgumst þá meira markaðsleigu en þó þannig að greiðslubyrðin fari aldrei yfir 25 % af heildartekjum,“ segir Björn Traustason.

Nánar er rætt við Björn í Speglinum.

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV