Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Tvær konur meðal 40 launahæstu forstjóra

26.07.2013 - 11:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Á lista tekjublaðs Frjálsrar verslunar yfir launahæstu forstjóra landsins sést að einungis tvær konur komast á topp fjörutíu. Það eru þær Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi og Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, forstjóri Actavis.

Þær Rannveig og Guðbjörg Edda verma fimmta og sjötta sætið á listanum, en næsta konan til að ná inn á lista fimmtíu launahæstu forstjóra er í fertugasta og fyrsta sæti. Alls eru fimm konur meðal fimmtíu launahæstu forstjóra landsins.

Launahæstur forstjóra er Finnur Árnason, forstjóri Haga, með tæplega 8,4 milljónir í mánaðarlaun. Næstur honum er Guðmundur Marteinsson, framkvæmdarstjóri Bónus, með rúmlega 7,6 milljónir. Þá koma Jón Guðmann Pétursson, forstjóri Hampiðjunnar, með 7,4 miljónir og Kjartan Már Friðsteinsson, framkvæmdarstjóri Banana, með tæplega 5,9 milljónir.

Rannveig Rist er með tæplega 5,8 milljónir í mánaðarlaun og Guðbjörg Edda með tæplega 5,7 milljónir. 

 

Þess skal geta að um er að ræða skattskyldar tekjur á árinu 2012 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, til dæmis af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Þá er kærufrestur ekki runnin út og álagning því ekki endanleg.