Tvær fjölskyldur gerðu sjálfsvígsárásir

14.05.2018 - 12:35
epa06734795 An Indonesian police officer secures the area following a bomb blast at Surabaya's police headquarters in Surabaya, East Java, East Java, Indonesia, 14 May 2018. According to media reports, at least four officers and six civilians were
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Tíu særðust í morgun þegar fimm manna fjölskylda, þar á meðal eitt barn, gerði sjálfsvígsárás á höfuðstöðvar lögreglu í Surabaya, næst stærstu borg Indónesíu. AFP greinir frá. Fólkið kom að lögreglustöðinni á tveimur mótorhjólum.

Átta ára stúlka úr fjölskyldunni sem gerði árásina lifði árásina af og var flutt á sjúkrahús. Foreldrar hennar og tveir bræður létu lífið.  Í gær gerði sex manna fjölskylda, þar af tvær níu og tólf ára stúlkur, sjálfsvígsárásir í morgunmessum þriggja kirkja í borginni. Átján létu lífið í þeirri árás og yfir 40 særðust. Vígahreyfingin sem kennir sig við Íslamskt ríki kveðst bera ábyrgð á þeirri árás.

AFP hefur eftir Ade Banani, sérfræðingi hjá Miðstöð Indónesíuháskóla í hryðjuverkarannsóknum, að börnin í hafi líklega verið tekin með án þess að vita af fyrirhugaðri hryðjuverkaárás. Ef fjölskylda fylgi hefðbundnum kynjahlutverkum þá hafi faðirinn „völdin, þannig að allir þurfa að hlýða. Börnin vita líklega ekki hvað er að gerast eða skilja það ekki.“

Fjölskyldufeðurnir í báðum fjölskyldunum höfðu tengsl við harðlínusamtökin Jamaah Asharut Daulah (JAD) sem styður Íslamska ríkið. AFP hefur eftir Tito Karnavian ríkislögreglustjóra Indónesíu að Íslamska ríkið hafi skipulagt og fyrirskipað árásirnar á kirkjurnar. Markmið árásanna hafi mögulega verið að hefna fyrir handtöku nokkurra JAD-foringja. Harðlínumaðurinn Aman Abdurrahmaner er þar á meðal en hann hefur verið tengdur við mannskæðar óeirðir íslamskra fanga í öryggisgæslufangelsi í nágrenni Jakarta í liðinni viku. Hann hefur sömuleiðis verið tengdur við nokkrar mannskæðar árásir í borginni, þar á meðal byssu og sjálfsvígsárás árið 2016 sem kostuðu fjóra óbreytta borgara lífið. 

AFP hefur eftir indónesísku lögreglunni að foreldrarnir í árásunum tveimur hafi ekki barist í Sýrlandi þrátt fyrir bein tengsl við Íslamska ríkið og leiðrétti þannig fyrri yfirlýsingu. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi