Turninn verið í miðbæ Akureyrar í rúm 90 ár

30.07.2018 - 14:56
Turninn í miðbæ Akureyrar á sérstakan stað í hjörtum margra Akureyringa en hann var byggður fyrir rúmum 90 árum. Gert var ráð fyrir að turninn yrði færður en nú hefur hann fengið nýtt hlutverk.

Mætti rífa hann ef bæjarstjórn krefðist þess

Forsaga Turnsins er sú að Oddur Thorarensen lyfsali fékk leyfi hjá byggingarnefnd Akureyrar árið 1925 til að byggja söluturn á lóð við Hafnarstræti 104. Talið er að hann hafi verið byggður þar 1926. Oddur fékk svo leyfi árið 1928 til að flytja söluturninn yfir á aðra lóð, milli Hafnarstrætis 100 og 102, með því skilyrði að turninn yrði járnklæddur, og að það mætti rífa hann ef bæjarstjórn krefðist þess. Enn stendur hann þó þar 90 árum síðar. 

Kristján Skarphéðinsson, sem margir Akureyringar þekkja sem Kristján í Amaro og starfaði við verslun í miðbænum til fjölda ára, segir að hans fyrstu minningar af turninum séu frá því um miðja síðustu öld. Í honum hafi verið svokölluð nýlenduvöruverslun. „Þetta var þurrvöruverslun með nammi, gosdrykki og fleira, það er mín upplifun í minningunni," segir Kristján

Verður kannski fluttur

Þórhallur Jónsson, formaður Miðbæjarsamtakanna á Akureyri, segir að áætlanir hafi verið uppi um að færa turninn en hann hafi ákveðið hlutverk í bæjarmyndinni. „Hann er á byggingarlóð þannig það er gert ráð fyrir að það verði byggt hérna en við sjáum hann kannski fyrir okkur í framtíðarskipulagi nær höfninni, þar koma lóðir sem gera ráð fyrir svona litlum húsum og hann gæti sómað sér mjög vel þar," segir Þórhallur.

Turninn er 18,5 fermetrar að stærð. Hann var upphaflega alklæddur timburklæðningu, en er nú klæddur steinblikki. Í fjölda ára gegndi hann hlutverki söluturns og var þá rauður, þar til opnaður var þar indverskur matsölustaður árið 2007 og skartaði hann þá karrígulum lit. 

Finnur að fólki þyki vænt um húsið

Í næstu viku verður ísbúðin Valdís opnuð í Turninum. Unnið er að því að ná gamla útlitinu að einhverju leyti, meðal annars með því að setja aftur klukku í turninn. „Við höfum fundið fyrir því, þegar við höfum verið að vinna hérna seinustu daga, að sérstaklega eldra fólkið, það kemur og stoppar mikið við og maður finnur greinilega að fólki þykir vænt um þetta hús," segir Guðmundur Ómarsson, eigandi Valdísar á Akureyri.

evabb's picture
Eva Björk Benediktsdóttir
íþróttafréttamaður